Hafi neikvæðar afleiðingar

„Forsenda þess að EES-samningur stæðist stjórnarskrá var að Ísland hefði virkt neitunarvald um hvaða efnisatriði samþykkta ESB yrðu lögtekin hér,“ sagði í leiðara Morgunblaðsins 29. október 2020 þar sem Davíð Oddsson, annar ritstjóri blaðsins og fyrrverandi forsætisráðherra hélt að öllum líkindum á penna. Neitunarvaldinu hefur aldrei verið beitt frá því að Ísland gerðist aðili að EES-samningnum fyrir rúmum 30 árum síðan enda var í raun aldrei hugmyndin að til þess kæmi.

Hafa má í huga í þessu sambandi, einkum fyrir þá sem ekki þekkja til þeirrar sögu, að Davíð var forsætisráðherra þegar Ísland gerðist aðili að EES-samningnum árið 1994. Hann, ásamt Jóni Baldvini Hannibalssyni sem þá var utanríkisráðherra, hefur ítrekað lýst því yfir á liðnum árum að samningurinn hafi þróast með allt öðrum hætti en hann hafi séð fyrir sér á sínum tíma. Einkum með tilliti til sífellt meira regluverks sem taka þurfi upp í gegnum hann og kröfur um framsal valds.

Vert er, áður en lengra er haldið, að nefna að ekki er um hefðbundið neitunarvald að ræða líkt og til dæmis í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna þar sem beinlínis er hægt að stöðva mál sé því beitt. Beiting neitunarvaldsins í EES-samningnum vegna tiltekins regluverks frá Evrópusambandinu felur það einungis í sér að málið fari í ákveðið formlegt ferli þar sem reynt sé að finna lausn á því. Þó ekki hvort regluverkið verði tekið upp heldur aðeins með hvaða hætti það verði gert.

Hefði neitunarvaldið ekki verið fyrir hendi verður að telja afar ólíklegt að Ísland hefði gerzt aðili að EES-samningnum, bæði af lögfræðilegurm og pólitískum ástæðum. Miðað við umræðuna á sínum tíma hefði það ekki sízt haft áhrif á afstöðu þeirra þingmanna Sjálfstæðisflokksins sem greiddu atkvæði með samþykkt samningsins. Raunar hefði flokkurinn þá væntanlega aldrei staðið að málinu en eins og Davíð kemur inn á var þetta ein helzta forsenda þess að aðildin var samþykkt.

Hitt er svco annað mál að komið hefur beinlínis fram hjá Evrópusambandinu að tryggja þurfi að það hafi neikvæðar afleiðingar fyrir hagsmuni aðildarríkis EES-samningsins sem standi utan sambandsins beiti það neitunarvaldinu. Til að mynda kemur þetta fram í vinnuskjali framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins um starfsemi Evrópska efnahagssvæðisins frá 7. desember 2012. Með öðrum orðum má ljóst vera að aldrei var ætlun sambandsins að hægt yrði að beita neitunarvaldinu.

Hérlend stjórnvöld hafa beinlínis lýst þvi yfir, til að mynda í umræðunni um þriðja orkupakka Evrópusambandsins, að ekki sé hættandi á að beita neitunarvaldinu vegna mögulegra viðbragða sambandsins. Fram kemur í leiðaranum að sá fyrirvari við upptöku regluverks í gegnum EES-samninginn virtist þannig hafa gufað upp án þess að neitt haldbært væri því til stuðnings. „Ekkert er gert með að væri slíkt satt þá skorti þar með stjórnarskrárlega forsendu fyrir veru Íslands í EES.“

Hjörtur J. Guðmundsson
sagnfræðingur og alþjóðastjórnmálafræðingur

(Ljósmynd: Fáni Evrópusambandsins. Eigandi: Hjörtur J. Guðmundsson)