„Ég mun gera það sem mín sannfæring segir í því að tryggja öryggi og hagsmuni Íslendinga. Öll rök sem ég hef haft gegn því að Ísland gangi í Evrópusambandið eru þarna ennþá og þau hafa í rauninni ekki breyst en ef að heimurinn breytist þannig að það koma upp hagsmunir eða aðstæður eða alvarlegir hlutir sem eru miklu stærri heldur en þessi rök að þá hljótum við einhvern veginn að horfa á það með öðrum hætti,“ sagði Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og fyrrverandi varaformaður flokksins og utanríkisráðherra, á málþingi sem fram fór á vegum Alþjóðamálastofnunar Háskóla Íslands síðasta föstudag undir yfirskriftinni Bandaríkin – traustur bandamaður.
Fjallað er um málið í Morgunblaðinu í dag. Fróðlegt er eðli málsins samkvæmt að Þórdís skuli telja að sú staða gæti komið upp að þau veigamiklu rök sem færð hafa verið gegn inngöngu í Evrópusambandsins mættu sín lítils. Rök gegn því að Ísland verði hluti af gamaldags tollabandalagi sem stefnt hefur jafnt og þétt að því frá upphafi að verða að einu ríki þar sem nær öll málefni landsins færðust undir yfirstjórn sambandsins, þar á meðal sjávarútvegsmálin, og vægi fulltrúa landsmanna, og þar með möguleikar á því að hafa áhrif á ákvarðanir, færi einkum eftir íbúafjölda landsins.
Vert er að spyrja að því hvað gæti mögulega vegið þyngra en þessar röksemdir og réttlætt það að Ísland afsalaði sér fullveldi sínu og stjórn eigin mála að stærstu leyti og í sífellt meira mæli? Fróðlegt hefði auðvitað verið ef Þórdís hefði varpað ljósi á það á málþinginu sem hún gerði ekki. Vitanlega verður þó að taka inn í myndina að ekki er víst að hér sé um að ræða rök gegn inngöngu Íslands í Evrópusambandið að mati Þórdísar enda vísaði hún á málþinginu til þeirra raka sem hún hefði haft í þeim efnum en gerði ekki frekari grein fyrir því hvaða röksemda hún ætti þar við.
Frásagnir af málþinginu herma annars að Þórdís hafi haft á orði að hún væri nú í aðstöðu til þess að tjá sig um þessi mál af meiri hreinskilni en áður. Væntanlega ólíkt því þegar hún var varaformaður Sjálfstæðisflokksins og batt vonir við það að verða næsti formaður hans. Full ástæða er auðvitað til þess að fagna því þegar fólk ákveður loks að koma hreint fram með raunverulegar skoðanir sínar í þessum og öðrum efnum þó heiðarlegra hefði vitanlega verið gagnvart okkur sjálfstæðismönnum og öðrum ef sú hefði einnig verið raunin á meðan Þórdís gegndi varaformennsku í flokknum.
Hins vegar varpar þetta óneitanlega frekara ljósi á ýmislegt. Til dæmis hversu mikla áherzlu Þórdís lagði meðal annars á samþykkt þriðja orkupakka Evrópusambandsins í gegnum aðildina að EES-samningnum og síðan bókunar 35 við samninginn. Síðasta haust gerði hún aðra tilraun til þess að koma frumvarpi um bókunina í gegnum Alþingi og bárust fregnir af því að ófáir þingmenn Sjálfstæðisflokskins hafi furðað sig á ofuráherzlu hennar á málið. Þá má rifja upp að kúvending varð í þeim efnum í kjölfar þess að Þórdís tók við utanríkisráðuneytinu og vörnum í málinu hætt.
Hjörtur J. Guðmundsson
sagnfræðingur og alþjóðastjórnmálafræðingur
(Ljósmynd: Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir. Eigandi: European People’s Party – Creative Commons Attribution 2.0 Generic)