Hafa þrýst á Evrópuríkin árum saman

Stjórnvöld í Bandaríkjunum hafa skorað á önnur aðildarríki NATO að stórauka fjárframlög til varnarmála til þess að efla varnarbandalagið í ljósi vaxandi ógnar frá Rússlandi. Þetta kemur fram í frétt brezka dagblaðsins Guardian. Hins vegar er ekki um nýlega frétt að ræða heldur frá 23. júní 2014. Fyrir meira en áratug síðan.

Fram kemur einnig í fréttinni að bandarískir embættismenn hafi lagt áherzlu á það á fundi utanríkisráðherra aðildarríkja NATO þá um sumarið að ríkin verðu að lágmarki 2% af landsframleiðslu sinni til varnarmála. Miðað við gögn varnarbandalagsins uppfylltu aðeins fjögur þeirra það viðmið, Bandaríkin, Bretland, Grikkland og Eistland.

„Bandaríkin hafa þrýst á evrópska bandamenn sína árum saman að auka útgjöld til varnarmála en án mikils árangurs,“ segir enn fremur í fréttinni og áfram að bandarísk stjórnvöld teldu að með innlimun Rússlands á Krímskaga væri bezta tækifærið í áraraðir [til þess að fá Evrópuríkin til þess að standa við skuldbindingar sínar].

Hins vegar tóku Evrópuríkin ekki við sér og héldu þess í stað áfram fyrri vanrækslu í varnarmálum og urðu auk þess enn háðari rússneskri orku. Hefðu ríkin tekið við sér þá væri staðan ljóslega allt önnur í dag en talið er að taka muni þau allt að áratug að bæta fyrir vanræksluna til þessa. Það er að segja geri þau það á annað borð.

Tal forystumanna Evrópuríkjanna um að Bandaríkin ætli ekki að standa við skuldbindingar sínar á vettvangi NATO er eðli málsins samkvæmt hjóm eitt í ljósi þess að ríkin sjálf hafa ekki staðið við sínar skuldbindingar. Lítið gagn er að því að segjast tilbúinn að koma öðrum til aðstoðar yrði ráðist á þá þegar engir burðir eru til þess.

Hafa má í huga að 2014 var Barack Obama forseti Bandaríkjanna. Hver Bandaríkjaforsetinn á fætur öðrum, bæði úr röðum repúblikana og demókrata, hefur þrýst á evrópsk aðildarríki NATO að taka sig taki og standa við skuldbindingar sínar. Donald Trump, núverandi forseti landsins, fann ekki upp þá gagnrýni heldur erfði hana.

Hjörtur J. Guðmundsson
sagnfræðingur og alþjóðastjórnmálafræðingur

(Ljósmynd: Þinghús Bandaríkjanna í Washington. Eigandi: Fulltrúadeild Bandaríkjaþings)