„Út, út, út, Hamas komdu þér út“

Hundruð Palestínumanna tóku þátt í mótmælum á norðurhluta Gaza á þriðjudaginn þar sem þess var krafizt að bundinn yrði endi á átökin við Ísrael og að Hamas-hryðjuverkasamtökn hefðu sig á brott af svæðinu. Fjallað var um mótmælin víða í fjölmiðlum. „Út, út, út, Hamas komdu þér út,“ var á meðal slagorðanna sem hrópuð voru. Fram kemur í fréttum að sjaldgæft sé að Palestínumenn þori að mótmæla Hamas enda berji samtökin slíkt iðulega niður með harðri hendi.

Við lestur fréttanna varð mér hugsað til aðsendrar greinar sem birtist á Vísi síðasta sumar sem rituð var af palestínskum hælisleitanda hér á landi í þýðingu Katrínar Harðardóttur. Inntakið í greininni var að íbúar Gaza væru á milli steins og sleggju, á milli Ísraels og Hamas. Framganga Ísraelsstjórnar var harðlega gagnrýnd en einnig samtakanna. Með árás Hamas á Ísrael 7. október 2023, sem kostaði fjölda óbreyttra borgara lífið, hefðu samtökin sett íbúana í mikla hættu.

Fórnarlömbin í yfirstandandi átökum hafa líkt og áður verið almennir borgarar. Einkum á Gaza þar sem hernaðaraðgerðir Ísraelshers eru annars vegar og hins vegar Hamas sem ljóst er að leggur enga áherzlu á það að gæta öryggis þeirra. Fátt er meira til marks um það en þeir tugir kílómetra af göngum sem grafnir hafa verið á Gaza fyrir vígamenn samtakanna með ærnum tilkostnaði á sama tíma og þar finnast hvorki loftvarnarbyrgi fyrir almenning né annað slíkt.

Mannréttindasamtökin Amnesty International hafa ítrekað fordæmt ógnarstjórn og ofbeldi Hamas í garð Palestínumanna á Gaza. Fjöldi þeirra hefur verið myrtur af öryggissveitum samtakanna. Mannréttindasamtökin hafa einnig fordæmt til dæmis ofbeldi Hamas í garð Palestínumanna sem mótmælt hafa stjórnarstefnu samtakanna á Gaza á undanförnum árum. Þá hafa öryggissveitirnar bæði beitt blaðamenn sem og starfsmenn mannréttindasamtaka grófu ofbeldi.

Fram kom í grein Palestínumannsins að nokkrum mánuðum eftir árásina á Ísrael hafi kröfugöngur verið farnar á Gaza þar sem þess hafi verið krafizt að bundinn yrði endir á átökin. „Útspilið þann sjöunda [október 2023] var dýrkeypt. Engu að síður bældi Hamas mótmælin niður með valdi og sleppti óþokkum sínum lausum til að þagga niður í kröfum almennings. Fólkið á Gaza má ekki einu sinni öskra þrátt fyrir sársaukann sem það líður.“ Hamas er óvinur Palestínumanna.

Hjörtur J. Guðmundsson
sagnfræðingur og alþjóðastjórnmálafræðingur

(Ljósmynd: Vígamenn Hamas. Eigandi: Fars Media Corporation – Attribution 4.0 International)