Tvær ólíkar skoðanakannanir

Tvær síðustu skoðanakannanir á fylgi stjórnmálaflokkanna hafa sýnt nokkuð ólíkar niðurstöður. Könnun Maskínu sýndi þannig Sjálfstæðisflokkinn með nokkru meira fylgi en Samfylkinguna en könnun Gallups Samfylkinguna með mun meira fylgi en Sjálfstæðisflokkinn. Fróðlegt verður að sjá næstu kannanir en einnig að bera saman þessar tvær.

Könnun Maskínu sýndi Sjálfstæðisflokkinn þannig með 24,3% gegn 23,3% Samfylkingarinnar sem var í fyrsta sinn í tvö ár sem Sjálfstæðisflokkurinn mældist með mest fylgi í könnunum. Könnun Gallups sýndi hins vegar Samfylkinguna með 27% gegn 22,4% Sjálfstæðisflokksins. Mikill munur er með öðrum orðum á niðurstöðum þessara kannana.

Helzti munurinn er sá að kannanirnar voru ekki gerðar á nákvæmlega sama tíma. Könnun Maskínu var þannig gerð dagana 5.-19. marz en könnun Gallups 3.-31. marz. Þó einhverjir gætu dregið þá ályktun að fyrir vikið væru niðurstöður könnunar Gallups nýrri eru allar líkur á því að það eigi að mestu leyti í reynd frekar við um könnun Maskínu.

Fyrir þessu er einföld ástæða. Samkvæmt rannsóknum svara flestir sem svara könnunum sem sendar eru í tölvupósti, eins og á bæði við um kannanir Maskínu og Gallups, fyrstu tvo dagana eða um og yfir helmingur. Miðað við það má gera ráð fyrir að megnið af svörunum í könnnun Gallups hafi skilað sér 3.-4. marz en 5.-6. marz í könnun Maskínu.

Fróðlegt verður í öllu falli að sjá niðurstöður næstu kannana á fylgi flokkana sem fyrr segir. Samfylkingin virðist hafa bætt allavega einhverju fylgi við sig, hvort sem það er jafn mikið og Gallup vildi meina eða ekki, og þá líklega einkum á kostnað Flokks fólksins vegna vandræða hans sem hins vegar hefur ekki komið sér vel fyrir ríkisstjórn flokkanna.

Hjörtur J. Guðmundsson
sagnfræðingur og alþjóðastjórnmálafræðingur

(Ljósmynd: Alþingishúsið. Eigandi: Hjörtur J. Guðmundsson)