Tækifæri eru í öllum aðstæðum. Hins vegar þarf að koma auga á þau og kunna að nýta sér þau. Tollar Donalds Trump Bandaríkjaforseta, eins slæmar fréttir og þeir annars eru, þýða að Ísland hefur samkeppnisforskot á flest ríki heimsins inn á Bandaríkjamarkað. Þar á meðal og ekki sízt ríki Evrópusambandsins sem fá á tvöfalt hærri tolla en við Íslendingar, 20% á ríki sambandsins á móti 10% á okkur. Við fáum á okkur lágmarkstolla ásamt fimm öðrum ríkjum.
Flest ríki fá á sig margfalda þá tolla sem settir hafa verið á Ísland. Mikilvægt er að nýta þessar aðstæður til sóknar inn á Bandaríkjamarkað á meðan þær eru til staðar. Mögulega verður þessi staða aðeins fyrir hendi um skamma hríð en gæti líka hugsanlega verið það til lengri tíma. Nýta þarf hana til markaðssetningar íslenzkra útflutningavara og ná til nýrra viðskiptavina. Betra er að gera ráð fyrir því að þetta svigrúm vari aðeins í skamma stund og nýta tímann vel.
Hefði Ísland verið í Evrópusambandinu hefðum við fengið á okkur 20% toll eins og önnur ríki þess. Um beinan ávinning er að ræða af veru landsins utan sambandsins. Enda lagði utanríkisráðuneytið, undir forystu Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur, áherzlu á það í samskiptum við bandarísk stjórnvöld að við værum ekki í Evrópusambandinu. Sem er auðvitað nokkuð sérstakt í ljósi þess að helzta stefnumál Viðreisnar, flokks utanríkisráðherra, er innganga í sambandið.
Hjörtur J. Guðmundsson
sagnfræðingur og alþjóðastjórnmálafræðingur
(Ljósmynd: Þinghús Bandaríkjaþings. Eigandi: Balon Greyjoy)