Milljörðum evra varið á óljósan hátt

Fjölmiðlar fjölluðu um það síðasta haust að milljörðum evra hefði verið varið með óljósum hætti á árinu 2023 af stofnunum Evrópusambandsins samkvæmt skýrslu endurskoðunarsviðs þess. Um væri að ræða útbreitt vandamál líkt og fyrri ár og tilfellum fjölgað ár frá ári. Um væri að ræða þróun sem ástæða væri til þess að hafa áhyggjur af. Þetta er fimmta árið í röð sem bókhald sambandsins r falleinkunn hjá endurskoðendasviðinu sem felur í sér rautt spjald frá því.

Málið teygir sig raunar áratugi aftur í tímann. Árum saman var bókhald Evrópusambandsins ekki staðfest af endurskoðendum sambandsins í ljósi þess hversu margt var á huldu varðandi útgjöld þess. Fyrir tuttugu árum síðan var Marta Andreasen, þáverandi yfirmaður sviðsins, rekin fyrir skort á hollustu eftir að hafa gripið til þess úrræðis að vekja athygli fulltrúa í fjárlaganefnd þings sambandsins á málinu sem síðan varð til þess að fjallað var um það í fjölmiðlum.

Fyrstu viðbrögð Andreasen voru hins vegar þau að hafa samband við framkvæmdastjórn Evrópusambandsins. Það kom henni í opna skjöldu að yfirmenn hennar þar voru fyllilega meðvitaðir um stöðu mála. Var henni sagt að láta sem ekkert væri sem hún taldi faglega óásættanlegt. Andreasen er sú eina í stjórnkerfi sambandsins sem þurft hefur að axla ábyrgð vegna málsins og enn er bókhald þess í verulegum ólestri þar sem milljörðum evra er varið með óljósum hætti árlega.

Hjörtur J. Guðmundsson
sagnfræðingur og alþjóðastjórnmálafræðingur