„Höfðum öll rangt fyrir okkur“

„Ég hafði rangt fyrir mér,“ sagði Wolfgang Schäuble, fyrrverandi fjármálaráðherra Þýzkalands, í kjölfar þess að rússneskar hersveitir réðust inn í Úkraínu í lok febrúar árið 2022. „Við höfðum öll rangt fyrir okkur.“ Vísaði hann þar til þeirrar stefnu þýzkra stjórnvalda um áratugaskeið, óháð því hvaða stjórnmálaflokkar voru við völd, að vinna að nánari efnahagslegum tengslum við Rússland. Einkum í orkumálum sem varð til þess að Þýzkaland varð háð rússneskri orku.

Hafa forystumenn innan Evrópusambandsins eins og Josep Borrell, fyrrverandi utanríkismálastjóri þess, ekki séð sér annað fært í kjölfar innrásarinnar en að gangast ítrekað við því opinberlega að ríki sambandsins, með Þýzkaland í broddi fylkingar, hafi hreinlega fjármagnað hernaðaruppbyggingu Rússlands og síðan hernað þess í Úkraínu sem stærsti kaupandi rússneskrar orku um áratuga skeið en útflutningur á gasi og olíu hefur lengi verið helzta tekjulind ríkissjóðs Rússlands.

Málið teygir sig meira en hálfa öld aftur í tímann. Fyrsti samningurinn um gasleiðslu frá Rússlandi, þá Sovétríkjunum, til Þýzkalands var undirritaður 1. febrúar 1970 en fjallað var ítarlega um málið á fréttavef brezka dagblaðsins Guardian í byrjun júní 2022. Willy Brandt var þá kanzlari landsins fyrir Jafnaðarmannaflokkinn. Ávinningurinn átti að vera gagnkvæmur. Þjóðverjar fengju þannig hráefni og eldsneyti frá Rússum fyrir vélar og hágæða þýzkar iðnaðarvörur.

Fyrir undirritun samningsins hafði NATO óformlega samband við stjórnvöld í Þýzkalandi og spurðist fyrir um áhrif hans á öryggismál landsins. Var bandalagið fullvissað um að áhyggjur væru óþarfar. Þjóðverjar myndu aldrei treysta á Rússland með svo mikið sem 10% af þörf sinni fyrir gas. Hálfri öld síðar var helmingur innflutts gass, þriðjungur innfluttrar olíu og helmingur innfluttra kola rússneskur. Varnaðarorð hvers Bandaríkjaforsetans á fætur öðrum voru hunzuð.

„Við héldum að með þessu yrði komið í veg fyrir stríð,“ sagði Sanna Marin, þáverandi forsætisráðherra Finnlands, á fundi á vegum hugveitunnar Lowy Institute í Sydney í Ástralíu 2. desember 2022 og vísaði þar til þeirrar stefnu að nánari efnahagsleg tengsl við Rússland myndu varðveita friðinn. Sú stefna hefði beðið skipbrot. Um er að ræða þá mýtu sem samrunaþróunin innan Evrópusambandsins hefur verið reist á. Að náin efnahagleg tengsl kæmu í veg fyrir stríð.

Meðal þess sem stríðið í Úkraínu hefur haft í för með sér er að afhjúpa enn frekar hversu illa Evrópusambandið og ríki þess hafa staðið að vígi í gegnum tíðina þegar kemur að öryggis- og varnarmálum. Þar með talið og ekki sízt með tilliti til efnahagsöryggis og skynsamlegra ákvarðana í þeim efnum. Fyrir vikið sætir það vitanlega furðu þegar því er haldið fram að sambandinu væri treystandi fyrir íslenzkum öryggismálum. Þetta eru að mati sumra traustir bandamenn.

Hjörtur J. Guðmundsson
sagnfræðingur og alþjóðastjórnmálafræðingur

(Ljósmynd: Fáni Evrópusambandsins. Eigandi: Hjörtur J. Guðmundsson)