„Heimurinn er að breytast og það er ljóst að það mun reyna á stöðu okkar sem sjálfstæð og fullvalda þjóð. Í 80 ár höfum við búið við eins konar alþjóðlegt réttarríki þar sem meginreglan hefur verið að ríki séu jöfn fyrir alþjóðakerfinu óháð stærð og styrk. Fullkomið er það ekki en þetta er einstakt í veraldarsögunni.“ Þannig komst Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, meðal annars að orði í grein í Morgunblaðinu á dögunum.
Milliríkjasamstarf hefur einmitt allajafna miðast við það að ríki sitji við sama borð við ákvarðanatöku. Til að mynda er einróma samþykki reglan þegar teknar eru ákvarðanir á vettvangi NATO. Sú var einnig raunin áður fyrr í tilfelli Evrópusambandsins en heyrir í dag nánast sögunni til. Þess í stað eru ákvaðarnir í ráðherraráði sambandsins, valdamestu stofnuninni, í langflestum tilfellum teknar í krafti aukins meirihluta sem tekur einkum mið af íbúafjölda ríkja þess.
Kæmi til inngöngu Íslands í Evrópusambandið yrði vægi landsins á þingi þess sex þingmenn af yfir 700 eða á við það að hafa um hálfan þingmann á Alþingi. Staðan yrði margfalt verri innan ráðherraráðsins þar sem vægið yrði allajafna á við einungis 5% af alþingismanni. Þetta yrði svokallað „sæti við borðið“ sem talað hefur gjarnan verið um í seinni tíð í röðum þeirra sem vilja sjá Ísland ganga í sambandið í stað þess að tala um áhrif innan þess eins og þeir gerðu áður.
Vaxandi áherzla Evrópusambandsins á íbúafjölda ríkja þess þegar vægi þeirra við ákvarðanatöku er annars vegar er hins vegar afar eðlileg í ljósi lokamarkmiðs samrunaþróunarinnar innan sambandsins allt frá upphafi að til verði að lokum evrópskt sambandsríki. Þannig tekur fjöldi þingmanna hvers ríkis Bandaríkjanna í fulltrúadeild Bandaríkjaþings mið af íbúafjölda þeirra og það sama á sem kunnugt er við um fjölda þingmanna hvers kjördæmis hér á landi.
Hver þróunin hefur verið innan Evrópusambandsins til þessa og hvert hún stefnir er eðli málsins samkvæmt grundvallaratriði þegar fjallað er um sambandið og hvort rétt væri fyrir Ísland að verða hluti þess. Þá er ekki síður mikilvægt hver staða landsins yrði innan Evrópusambandsins þegar kæmi að því að hafa áhrif á ákvarðanir sem teknar væru innan þess. Fyrir utan annað er vitanlega lítið gagn að sæti við borðið þegar ekki er einu sinni setið við sama borð.
Hjörtur J. Guðmundsson
sagnfræðingur og alþjóðastjórnmálafræðingur
(Ljósmynd: Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir. Eigandi: Utanríkisráðuneyti Eistlands – Attribution 2.0 Generic)