Tillögu um að norski Verkamannaflokkurinn legði áherzlu á inngöngu í Evrópusambandið var hafnað á landsfundi hans sem fram fór um síðustu helgi. Sömu örlög hlaut tillaga um að flokkurinn beitti sér fyrir því að fram færi þjóðaratkvæðagreiðsla í Noregi um það hvort sózt yrði eftir því að ganga í sambandið. Þess í stað var samþykkt óbreytt stefna um að innganga í Evrópusambandið væri ekki á dagskrá og að því yrði ekki breytt nema með samþykki nýs landsfundar.
„Við þurfum nú að beina orkunni að því að standa vörð um norska hagsmuni. Ekki að eyða henni í langt, krefjandi umsóknarferli [að Evrópusambandinu] sem hætta er á að sundri okkur,“ sagði Jonas Gahr Støre, forsætisráðherra Noregs og leiðtogi Verkamannaflokksins, í ræðu sinni á fundinum. Þjóðaratkvæðagreiðsla um Evrópusambandið væri ekki það bezta fyrir Noreg. „Við erfiðar aðstæður vil ég frekar halda Noregi sameinuðum en setja af stað ný átök með eða á móti.“
Verkamannaflokkurinn hefur verið annar af tveimur stærstu stjórnmálaflokkum Noregs undanfarna áratugi. Hinn flokkurinn, Hægriflokkurinn, hefur áratugum saman haft þá stefnu að Noregur ætti að ganga í Evrópusambandið. Ólíkt því sem haldið hefur verið fram að undanförnu í röðum hérlendra Evrópusambandssinna. Lengi var það einnig stefna Verkamannaflokksins að gengið yrði í sambandið en undanfarin ár hefur flokkurinn hins vegar í raun skilað auðu í þeim efnum.
Til þess að mynda ríkisstjórn þurfa bæði Hægriflokkurinn og Verkamannaflokkurinn að starfa með flokkum sem andvígir eru inngöngu í Evrópusambandið en vegna málefnaágreinings hafa flokkarnir tveir ekki getað myndað stjórn saman. Ástæða þess að Verkamannaflokkurinn hefur ekki lengur þá stefnu að gengið verði í sambandið er fyrst og fremst mikil andstaða við það innan hans. Þá hafa allar skoðanakannanir undanfarin 20 ár sýnt fleiri andvíga inngöngu en hlynnta.
Hjörtur J. Guðmundsson
sagnfræðingur og alþjóðastjórnmálafræðingur
(Ljósmynd: Norskir fánar fyrir utan konungshöllina í Ósló, höfuðborg Noregs. Eigandi: Maxxii)