Hverjum á að banna að keppa?

Verðandi forseti Alþjóðaólympínunefndarinnar, Kirsty Coventry, hefur lýst sig andvíga því að ríkjum sé meinuð þátttaka á Ólympíuleikunum vegna stríðsátaka. Coventry, sem er frá Simbabve og tekur við embættinu í sumar, sagði ákveðið ósamræmi felast í því að Rússlandi hefði verið meinuð þátttaka á Ólympíuleikunum á þeim forsendum á sama tíma og hryllileg átök ættu sér til dæmis stað í Afríku án þess að gripið væri til slíkra aðgerða gegn ríkjum sem þar ættu í hlut.

Fram kemur á fréttavef brezku sjónvarpsstöðvarinnar Sky að Coventry, sem er fyrrverandi ólympíumethafi í sundi og fyrsta konan til þess að gegna forsetaembættinu, hafi verið spurð að því af blaðamönnum daginn eftir kjör hennar hvort hún væri andvíg því að meina ríkjum að taka þátt í Ólympíuleikunum vegna stríðsátaka. Staðfesti hún að svo væri en sagði að leggja yrði mat á hvert tilfelli fyrir sig. Setja þyrfti viðmið í þeim efnum sem horfa mætti til við slíkar aðstæður.

Talsvert hefur borið á gagnrýni á það hér á landi að Rússlandi sé bönnuð þátttaka á Ólympíuleikunum vegna innrásar rússneska hersins í Úkraínu en ekki Ísrael vegna átakanna á Gaza. Burtséð frá skoðunum á því hvort hægt sé að bera þetta tvennt saman. Ekki sízt nú nýverið í kjölfar leikja íslenzka og ísraelska kvennalandsliðsins í handbolta. Hinir sömu hafa þó ekki séð ástæðu til að nefna önnur átök víða um heiminn þar sem fórnarlömbin eru að sama skapi almennir borgarar.

Með öðru orðum virðist gagnrýnin ekki snúast um það að átök eigi sér stað þar sem almennir borgara, ekki sízt konur og börn, séu á meðal fórnarlambanna heldur það að Ísrael eigi í hlut. Hvers vegna væri annars ástæða til þess að taka það ríki út fyrir sviga? Hvað með þau grimmilegu átök sem geisað hafa víða í Afríku eins og Coventry nefndi þar sem börn hafa miskunnarlaust verið drepin eða þau neydd til þess að gerast hermenn og konum nauðgað og þær drepnar?

Væntanlega má ljóst vera að hér skortir allt samræmi eins og Coventry hefur vakið máls á auk þess sem vissulega þarf að meta hvert tilfelli fyrri sig. Hvenær á að banna ríkjum þátttöku í ólympíuleikum og hvenær ekki? Hvar á að draga mörkin? Eða er rétt að gera það yfir höfuð? Er það hlutverk Ólympíuleikanna? Í öllu falli þarf í það minnsta að gæta þess að einstök ríki séu ekki tekin út fyrir sviga í þeim efnum og annað látið gilda um þau en önnur. Þar með talið Ísrael.

Hjörtur J. Guðmundsson
sagnfræðingur og alþjóðastjórnmálafræðingur

(Ljósmynd: Merki Ólympíuleikanna. Eigandi: Gert með aðstoð gervigreindar)