Sjálfstæðið í bútum til Brussel

„Við stöndum á ákveðnum tímamótum í samskiptum okkar við Evrópusambandið,“ sagði Styrmir Gunnarsson, fyrrverandi ritstjóri Morgunblaðsins, í ræðu á fjölmennum fundi í Valhöll, höfuðstöðvum Sjálfstæðisflokksins, 30. ágúst 2018 þar sem hann hafði uppi þung varnaðarorð varðandi þróun EES-samningsins. „Frá því að EES-samningurinn var gerður fyrir aldarfjórðungi hefur Evrópusambandið þróast á þann veg að það koma upp stöðugt áleitnari álitamál um hversu langt við getum gengið í þessu samstarfi án þess að við afsölum sjálfstæði okkar í smápörtum hér og þar til Brussel.“

Tímabært væri fyrir sjálfstæðismenn, sem gætu verið stoltir af sögu Sjálfstæðisflokksins og hlutverki hans í sjálfstæðisbaráttu þjóðarinnar og síðar í þorskastríðunum, að staldra við og spyrja sig á hvaða leið flokkurinn væri í stuðningi sínum við EES-samninginn í ljósi sífellt meiri krafna frá Evrópusambandinu um aukið framsal valds yfir íslenzkum málum í gegnum hann. Spurði Styrmir fundarmenn hvort það ætti að vera hlutverk og hlutskipti Sjálfstæðisflokksins, sem ætti sér svo merka sögu í baráttu fyrir fullveldi þjóðarinnar, að leiða þjóðina smám saman undir vald sambandsins.

Styrmir gagnrýndi harðlega þann málflutning ráðamanna að Íslendingar ættu ekki annarra kosta völ en að samþykkja kröfur Evrópusambandsins um sífellt meira framsal valds yfir íslenzkum málum í gegnum aðildina að EES-samningnum. „Ef það er rétt að við eigum ekki annarra kosta völ er tímabært að stöðva við og endurskoða EES-samninginn allan. Landsfundir Sjálfstæðisflokksins eru æðsta vald í málefnum þessa flokks. Það hefur aldrei verið samþykkt að við afsölum okkur fullveldi okkar smátt og smátt og jafnt og þétt.“ Þvert á móti hefði slíku valdaframsali verið hafnað.

„Við skulum heiðra minningu þeirra sem á undan okkur hafa gengið í þessum flokki. Við skulum gæta vel að sögunni og pólitískri arfleifð þeirra og við verðum að vera sem fyrr merkisberar íslenzks sjálfstæðis,“ sagði Styrmir enn fremur undir lok ræðu sinnar. Varaði hann við afleiðingum þess fyrir Sjálfstæðisflokkinn ef haldið yrði áfram að styðja frekara framsal valds í gegnum EES-samninginn: „Sá þráður í sálarlífi þessa flokks sem snýr að fullveldi og sjálfstæði er mjög sterkur. Flokkurinn virðist hafa misst varanlega um þriðjung af sínu fylgi. Hann má ekki við meiru.“

Hjörtur J. Guðmundsson
sagnfræðingur og alþjóðastjórnmálafræðingur

(Ljósmynd: Merki Sjálfstæðisflokksins. Eigandi: Hjörtur J. Guðmundsson)