„Við stöndum frammi fyrir tvíþættum áskorunum gagnvart löggjöf af þessu tagi. Annars vegar, ef við tökum þessa löggjöf ekki upp þá getur það haft áhrif á aðgang okkar að innri markaðnum. Ef við tökum hana upp þá vekur það upp álitaefni um það hvernig EES-samningurinn er að þróast.“ Þetta sagði Finnur Þór Birgisson, varamaður sendiherra Íslands í Brussel, á Morgunvaktinni á Rás 1 28. apríl síðastliðinn og vísaði þar til fjölþættrar og marghliða löggjafar sem Evrópusambandið hefði sett í vaxandi mæli og snerist ekki einungis um að auðvelda viðskipti á innri markaði þess.
Fram kom enn fremur í máli Finns í þættinum að umrædd löggjöf Evrópusambandsins, sem kölluð hefði verið þverlægar gerðir, tæki til margra sviða og rúmaðist þannig ekki innan hins hefðbundna forms löggjafar sem varðaði skýrt afmörkuð málefni. Þess í stað hefði löggjöfin almennari skírskotun. Slíkar gerðir væru fyrir vikið í vaxandi mæli áskorun fyrir þau aðildarríki EES-samningsins sem ekki væru innan sambandsins, Ísland, Noreg og Liechtenstein. „Það sem við sjáum þegar við horfum á þessa þróun er að nálgun Evrópusambandsins á því hvað felst í innri markaðnum er að breytast.“
Fram kemur í frétt Ríkisútvarpsins um viðtalið við Finn að fjallað hafi verið um þessa þróun EES-samningsins í skýrslu sem EFTA hafi látið gera á síðasta ári þar sem ítarlega væri rætt um umræddar þverlægar gerðir. Það er að segja reglugerðir og tilskipanir frá Evrópusambandinu sem næðu til tveggja eða fleiri málaflokka og snerust um það að ná markmiðum sem væru annars eðlis en þau sem hefðu beinlínis með málefni innri markaðarins að gera. Regluverk sem eftir sem áður er gerð krafa um að sé innleitt á Íslandi, í Noregi og Liechtenstein í gegnum aðild ríkjanna að samningnum.
Höfundar skýrslu EFTA leggja fyrir vikið áherzlu á það samkvæmt fréttinni að þegar lagt sé mat á umræddar gerðir og innleiðing þeirra í lagaumhverfi ríkjanna þriggja undirbúin verði ekki aðeins að skoða þær út frá því hvort þær falli undir gildissvið EES-samningsins, líkt og raunin hefur verið til þessa, heldur einnig að leggja mat á það hvaða áhrif það gæti haft á stöðu ríkjanna á innri markaðinum að taka þær ekki upp. Með öðrum orðum eru skilaboðin sem fyrr þau að samþykkja verði allt það regluverk sem Evrópusambandið ákveður að taka verði upp í gegnum samninginn.
Taka þarf meðal annars og ekki sízt þessa þróun EES-samningsins með í reikninginn þegar fjallað er um frumvarp Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur, utanríkisráðherra og formanns Viðreisnar, um bókun 35 við samninginn sem felur í sér að regluverk frá Evrópusambandinu, sem innleitt hefur verið hér á landi í gegnum hann, gangi framar almennri löggjöf sem á sér innlendan uppruna. Það mun þá einnig gilda um umrætt þverlægt regluverk sambandsins sem nær sem áður segir til markmiða sem standa utan innri markaðarins sem Ísland gerðist aðili að í gegnum EES-samninginn.
Hjörtur J. Guðmundsson
sagnfræðingur og alþjóðastjórnmálafræðingur
(Ljósmynd: Fánar aðildarrríkja EFTA ásamt fána Evrópusambandsins. Eigandi: EFTA)