Fengum leigubílalögin vegna EES

Mikið hefur verið rætt um lög um leigubifreiðaakstur sem samþykkt voru á Alþingi í desember 2022, bæði í umræðunni og í fjölmiðlum. Ekki sízt vegna þess ástands sem skapazt hefur við Flugstöð Leifs Eiríkssonar þar sem komið hefur jafnvel til handalögmála á milli leigubílstjóra. Minna hefur hins vegar verið fjallað um tilefni þess að lögin voru sett en það var einkum gert með vísan til kröfu frá Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) vegna aðildar Íslands að EES-samningnum.

„Heildarendurskoðun laga um leigubifreiðar hófst með skipun starfshóps um endurskoðun á þeim reglum sem gilda um leigubifreiðaakstur á Íslandi í október 2017. Starfshópurinn skilaði tillögum í skýrslu í mars 2018. Þar kom fram að breytingar á gildandi lögum væru óhjákvæmilegar þar sem þau samrýmdust líklega ekki ákvæðum EES-samningsins,“ sagði þannig í fréttatilkynningu á vef Stjórnarráðsins þegar frumvarpið að lögunum hafði verið lagt fram á Alþingi.

„Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) hóf frumkvæðisathugun á leigubílamarkaði árið 2017 en þá hafði stofnunin nýlega komist að þeirri niðurstöðu í rökstuddu áliti að leigubifreiðalöggjöf í Noregi uppfyllti ekki ákvæði EES-samningsins. Í nóvember 2021 birti ESA rökstutt álit þess að efnis að íslenska ríkið brjóti á skyldum sínum gagnvart EES-samningnum, einkum er varðar rétt borgara til að hefja og stunda sjálfstæða atvinnustarfsemi,“ sagði enn fremur í fréttatilkynningunni.

Vissulega var einnig fyrir að fara pólitískum vilja til þess að endurskoða gildandi löggjöf um leigubílaakstur enda að ýmsu leyti ekki vanþörf á. Hins vegar er ljóst að sú leið sem farin var í þeim efnum tók fyrst og fremst mið af kröfum ESA með skírskotun til aðildarinnar að EES-samningnum. Ekki sízt áherzlan á það að þeir sem á annað borð væru með lögheimili innan Evrópska efnahagssvæðisins og uppfylltu almenn skilyrði laganna ættu rétt á því að aka leigubíl hér á landi.

Hjörtur J. Guðmundsson
sagnfræðingur og alþjóðastjórnmálafræðingur

(Ljósmynd: Leigubíll. Eigandi: blu-news.org – Creative Commons Attribution 2.0 Generic)