„Langstærstur hluti viðskipta Íslands er við Evrópu og fer fram á grunni EES-samningsins og síðan góðra samninga við meðal annars Bretland,“ sagði Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, utanríkisráðherra og formaður Viðreisnar, meðal annars í ræðu sem hún flutti á Alþingi í fyrradag í umræðum um skýrslu hennar um utanríkis- og alþjóðamál en umræddur viðskiptasamningur við Bretland er svonefndur víðtækur fríverzlunarsamningur sem kom í stað EES-samningsins.
Með útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu yfirgaf landið einnig Evrópska efnahagssvæðið. Forystumenn sambandsins reyndu ítrekað að fá brezk stjórnvöld til þess að fallast á það að vera áfram innan svæðisins en því var alfarið hafnað. Þess í stað sömdu Bretar við Evrópusambandið um víðtækan fríverzlunarsamning og við Íslendingar samhliða því um hliðstæðan samning við Bretland sem kom sem fyrr segir í stað EES-samningsins hvað viðskipti við Breta varðar.
Fríverzlunarsamningurinn við Bretland hefur reynzt vel eins og Þorgerður kom inn á í ræðu sinni. Þegar samningurinn lá fyrir sumarið 2021 viðurkenndi hún að hann hefði tryggt sömu kjör í viðskiptum við Breta á við EES-samninginn. Hins vegar hefur samningurinn ekki aðeins tryggt viðskiptahagsmuni Íslands heldur felur hann ólíkt EES-samningnum ekki í sér vaxandi framsal valds í gegnum einhliða upptöku íþyngjandi regluverks. Nokkuð sem ekki verður metið til fjár.
Með öðrum orðum skiptum við EES-samningnum út fyrir fríverzlunarsamning við Bretland, annað stærsta viðskiptaland okkar á eftir Bandaríkjunum, án þess að nokkuð færi á hliðina. Með sama hætti væri hægt að tryggja viðskiptahagsmuni Íslands gagnvart Evrópusambandinu án þess sem fyrr segir að þurfa að framselja vald yfir íslenzkum málum til sambandsins í gegnum upptöku á íþyngjandi regluverki frá því. Meira að segja samkvæmt orðum formanns Viðreisnar.
Hitt er svo annað mál að fyrir daga EES-samningsins fóru viðskipti Íslands við ríki Evrópusambandsins fram í gegnum fríverzlunarsamning frá 1972 sem enn er í fullu gildi. Með honum hafði til að mynda þegar verið samið um fullt tollfrelsi með iðnaðarvörur og stór hluti útflutnings á sjávarafurðum fer enn í gegnum samninginn. Hægt væri einfaldlega að uppfæra hann í víðtækan fríverzlunarsamning. EES-samningurinn bætti í raun ekki miklu við í þeim efnum.
Hjörtur J. Guðmundsson
sagnfræðingur og alþjóðastjórnmálafræðingur
(Ljósmynd: Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra. Eigandi: Mfa.gov.ua – Attribution 4.0 International)