„Við verðum að heyra frá ykkur“

Haft var eftir Kristrúnu Frostadóttur, forsætisráðherra og formanni Samfylkingarinnar, í Bítinu á Bylgjunni fyrir helgi að ríkisstjórnin hefði þá fyrr í vikunni eyrnamerkt fjármagn „svo verkalýðsfélög, félagasamtök og stéttarfélög geti byggt upp umræðu í aðdraganda atkvæðagreiðslunnar með málstofum eða fundum.“ Vísaði hún þar til fyrirhugaðs þjóðaratkvæðis um það hvort stefnt skuli að inngöngu í Evrópusambandið sem til stendur að fari fram fyrir lok árs 2027.

Fróðlegt er að Kristrún hafi sérstaklega nefnt verkalýðsfélög og stéttarfélög í ljósi þess að Dagbjört Hákonardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, ritaði grein á Vísi fyrir skömmu þar sem hún hvatti verkalýðshreyfinguna til þess að beita sér í umræðunni um Evrópusambandið. Skilaboðin voru vitanlega þau að hún ætti að beita sér fyrir inngöngu í sambandið. Hins vegar vakti athygli að engin haldbær rök komu fram í greininni fyrir því hvers vegna hreyfingin ætti að gera það.

Hins vegar lýstu skrif Dagbjartar talsverðri örvæntingu í þessum efnum. Þannig sagði hún meðal annars í greininni: „Kristrún Frostadóttir, forsætisráðherra og formaður Samfylkingarinnar hefur talað einart fyrir mikilvægi þess að ef við viljum ná árangri í umræðunni þurfa stjórnmálaflokkar liðsstyrk í henni frá hagsmunasamtökum og ekki síst verkalýðshreyfingunni.“ Síðar sagði síðan til dæmis: „Verkó – við verðum að heyra frá ykkur“. Og í lokin: „Kæru félagar – boltinn er ykkar!“

Með öðrum orðum treystir Kristrún og Samfylkingin á það að verkalýðshreyfingin, „félagar“ þeirra, komi ríkisstjórninni til bjargar við að reyna að koma Íslandi inn í Evrópusambandið og hyggst sérstaklega veita fé úr ríkissjóði til hennar í þeirri von sinni. Á sama tíma hefur verkalýðshreyfingin á hinum Norðurlöndunum verið mjög gagnrýnin á sambandið og sú norska verið andvíg inngöngu Noregs í það í það minnsta frá 1994 þegar norskir kjósendur höfnuðu henni síðast.

Hjörtur J. Guðmundsson
sagnfræðingur og alþjóðastjórnmálafræðingur

(Ljósmynd: Kristrún Frostadóttir, forsætisráðherra og formaður Samfylkingarinnar, og Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins. Eigandi: © European Union, 2025, CC BY 4.0)