Fundargerð frá fundi Þorbjargar S. Gunnlaugsdóttur, dómsmálaráðherra og þingmanns Viðreisnar, með Úlfari Lúðvíkssyni, þáverandi lögreglustjóra á Suðurnesjum, sem mbl.is greinir frá í dag, er ásamt fleiru til marks um einbeittan vilja til þess að losna við hann úr embættinu. Þannig kemur þar til að mynda fram að ráðherrann hafi boðið Úlfari að verða lögreglustjóri á Austurlandi án þess að þurfa að sækja um það embætti. Tal Þorbjargar um að einfaldlega hafi verið talið eðlilegt að auglýsa embættið á Suðurnesjum vegna fyrirhugaðra breytinga á starfsemi þess standast þannig alls enga skoðun.
Tilgangurinn með því að bjóða Úlfari embætti lögreglustjórans á Austurlandi hefur væntanlega verið sá að draga úr líkunum á því að hann myndi sækja um embættið á Suðurnesjum þegar það yrði auglýst í haust og undirstrika við hann um leið með afgerandi hætti að starfskrafta hans væri ekki óskað lengur þar. Með öðrum orðum væri ekki einungis um eitthvað formsatriði að ræða. Viðbrögð Úlfars voru eðlilega, og ekki ósennilega það sem gert var ráð fyrir, að óska eftir því að láta þegar af störfum. Skiljanlega þótti honum um kaldar kveðjur að ræða af hálfu ráðherrans enda voru þær sannarlega kaldar.
Fram hefur komið í máli Þorbjargar að ákvörðun hennar væri pólitísks eðlis. Tilkomin vegna stefnu ríkisstjórnarinnar í landamæramálum. Úlfar hefur hins vegar ítrekað kallað eftir því að þau mál væru tekin föstum tökum sem stjórnvöld hafa sagst ætla að gera. Þá hefur lögreglan á Suðurnesjum náð stórbættum árangri í þeim efnum þrátt fyrir að það umhverfi sem henni er ætlað að starfa innan hafi ekki verið eins og bezt væri á kosið. Sú ákvörðun að segja honum upp störfum samrýmist afar illa þeim yfirlýsingum að til standi að taka til hendinni í þeim efnum. Það er þá fremur í orði en á borði.
Meðal þess sem Úlfar hefur gagnrýnt eru ýmsar brotalamir vegna aðildar Íslands að Schengen-svæðinu. Hefur hann greint frá því faglega mati sínu að færa mætti gild rök fyrir því að hagsmunum landsins væri betur borgið utan þess. Þannig væru vandamálin á landamærunum gagnvart öðrum aðildarríkjum Schengen-svæðisins en ekki ríkjum sem standa utan þess þar sem viðhöfð væri hefðbundin landamæragæzla með vegabréfaskoðun. Væntanlega hefur sá málflutningur Úlfars, þó hann eigi fulla samleið með veruleikanum, ekki þótt samrýmast áherzlu Viðreisnar á inngöngu í Evrópusambandið.
Hjörtur J. Guðmundsson
sagnfræðingur og alþjóðastjórnmálafræðingur
(Ljósmynd: Frá Keflavíkurflugvelli. Eigandi: Jeff Hitchcock – Creative Commons Attribution 2.0 Generic)