Frakkar og Þjóðverjar við stýrið

Forystumenn Frakklands og Þýzkalands hafa í áratugi samræmt afstöðu sína áður en mál hafa verið tekin fyrir á vettvangi Evrópusambandsins. Ekki sízt í ráðherraráði sambandsins sem gjarnan er talin valdamesta stofnun þess. Þetta hefur sætt mikilli gagnrýni í gegnum tíðina, ekki sízt frá fámennari ríkjum innan Evrópusambandsins, á þeim forsendum að með þessu væru ákvarðanir í raun teknar fyrirfram og lítið svigrúm eftir fyrir aðkomu annarra ríkja sambandsins.

„Komið var á reglulegu tvíhliða samstarfi á milli ríkjanna tveggja með formlegum hætti með Elysée-sáttmálanum 1963 sem náði hámarki með sameiginlegum ríkisstjórnarfundum og fundum háttsettra stjórnmálamanna um einstaka málaflokka til að samræma afstöðu ríkjanna, sérstaklega í aðdraganda funda ráðherraráðsins. Gagnrýnt hefur verið að með slíkum fundum væru teknar fyrirfram ákvarðanir innan ráðsins og lítið svigrúm skilið eftir fyrir frekari samningaviðræður.“

Með þessum hætti er fjallað um ráðandi stöðu Frakklands og Þýzkalands á vef þings Evrópusambandsins þar sem enn fremur kemur fram að fyrir vikið hafi önnur ríki innan sambandsins upplifað sig einungis í hlutverki áhorfenda (e. bystanders). Þetta á eðli málsins samkvæmt einkum við um fámennustu ríkin enda fer vægi ríkja í ráðherraráði Evrópusambandsins, og öðrum stofnunum sambandsins þar sem þau eiga fulltrúa, allajafna einkum eftir því hversu fjölmenn þau eru.

Kæmi til þess að Ísland gengi í Evrópusambandið yrði vægi landsins í ráðherraráðinu fyrir vikið einungis um 0,08% eða á við 5% hlutdeild í þingmanni á Alþingi. Langflestar ákvarðanir í ráðinu eru háðar því að 55% ríkjanna standi að baki þeim með 65% íbúa sambandsins en fjögur stærstu ríkin, Þýzkaland, Frakkland, Ítalía og Spánn, hafa 58% íbúanna á bak við sig. Þó öll hin 23 ríkin stæðu saman þyrftu þau engu að síður eitt þessara fjögurra ríkja í lið með sér til taka ákvarðanir.

Hins vegar þarf aðeins fjögur ríki til þess að hindra ákvarðanatöku í ráðherraráði Evrópusambandsins svo fremi að þau hafi yfir 35% íbúafjölda þess á bak við sig. Stærstu fjögur ríkin geta þannig stöðvað hvaða mál sem er fyrir utan þau fáu tilfelli þar sem enn er krafizt einróma samþykkis og þar sem einfaldur meirihluti gildir. Raunar nægir Frakklandi og Þýzkalandi nánast hvaða tvö ríki sem eru þar sem þau vantar aðeins um 1,6 prósentustig til þess. Ísland væri þó ekki eitt þeirra.

Hjörtur J. Guðmundsson
sagnfræðingur og alþjóðastjórnmálafræðingur

(Ljósmynd: Fáni Evrópusambandsins. Eigandi: Hjörtur J. Guðmundsson)