Skilur ekki veruleika eyjaskeggja

„Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins virðist, miðað við mörg lagafrumvörp hennar, vera ófær um að skilja veruleika fólks sem býr í fámennunum eyríkjum á jaðri sambandsins,“ hafði dagblaðið Times of Malta eftir Cyrus Engerer, þáverandi þingmanni Möltu á þingi Evrópusambandsins, í marz 2023. Talsvert fleiri búa á Möltu en á Íslandi eða um 520 þúsund manns en vægi ríkja innan sambandsins við ákvarðanatökur tekur allajafna fyrst og fremst mið af íbúafjölda þeirra.

Tilefni ummæla Engerers var löggjöf Evrópusambandsins um kolefnisskatta á samgöngur með flugi en stjórnvöld á Möltu hafa varað mjög við áhrifum hennar á hag eyríkisins sem er líkt og Ísland mjög háð flugsamgöngum. Tilgangur löggjafarinnar er að hvetja fólk til þess að ferðast frekar með lestum en flugvélum. Engar lestarsamgöngur eru þó á Möltu frekar en á Íslandi og hvað þá til annarra ríkja en umrædd löggjöf nær einnig hingað til lands vegna EES-samningsins.

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefur ein heimild til þess að leggja fram lagafrumvörp á vettvangi sambandsins sem væri hliðstætt við það ef ríkisstjórnin hér á landi gæti ein lagt fram lagafrumvörp á Alþingi en ekki alþingismenn. Þá má einnig hafa í huga, ólíkt því sem Evrópusambandssinnar eiga það til að halda fram, að þeir sem sæti eiga í framkvæmdastjórninni eru ekki fulltrúar heimalanda sinna heldur eru þeir einvörðungu embættismenn Evrópusambandsins.

Versta staða sem ríki getur verið í innan Evrópusambandsins, þegar kemur að hafa áhrif á ákvarðanatökur innan þess, er að vera fámennt ríki á jaðri sambandsins. Vægi ríkja innan þess fer þannig sem fyrr segir einkum eftir því hversu fjölmenn þau eru og hagsmunir jaðarríkja eru gjarnan afar ólíkir hagsmunum stóru meginlandsríkjanna. Kæmi til þess að Ísland gengi í Evrópusambandið yrði landið bæði það fámennasta innan sambandsins sem og á yzta jaðri þess.

Hjörtur J. Guðmundsson
sagnfræðingur og alþjóðastjórnmálafræðingur

(Ljósmynd: Fáni Evrópusambandsins. Eigandi: Hjörtur J. Guðmundsson)