„Ég held að margir Danir hafi þá upplifun að þetta sé langt í burtu, bæði Evrópusambandið og Brussel,“ sagði Metta Frederiksen, forsætisráðherra Danmerkur, í samtali við dönsku sjónvarpsstöðina TV2 Nord skömmu áður en kosið var til þings sambandsins í júní á síðasta ári. Fréttamaðurinn hafði spurt hana út í takmarkaðan áhuga Dana á kosningunum og sagðist hún sem forsætisráðherra hafa ákveðinn skilning á þeirri upplifun landsmanna hennar.
Kjörsóknin í kosningunum til þings Evrópusambandsins í Danmörku var tæplega 58,3% sem þó er talsvert hærra hlutfall en heildarkjörsóknin í kosningunum innan sambandsins sem var rétt rúmt 51%. Hins vegar var hún mun lakari en kjörsóknin í síðustu þingkosningum í landinu 2022 sem var 83,7%. Ummæli ráðherrans um að Evrópusambandið sé fjarlægt eru annars ekki hvað sízt áhugaverð þar sem Danmörk er hluti þess og hefur verið í rúma hálfa öld.
Telji margir Danir Evrópusambandið fjarlægt sem og Brussel, þar sem margar helztu stofnanir þess hafa aðsetur, má velta fyrir sér hver upplifun okkar Íslendinga yrði innan þess. Margfalt styttra er jú frá Brussel til Danmerkur en hingað til lands. Landfræðileg staðsetning Danmerkur er sömuleiðis fremur miðsvæðis í Evrópu og hagsmunir Dana eiga miklu meiri samleið með hagsmunum stóru ríkjanna innan sambandsins en okkar hefðu nokkurn tímann.
Hjörtur J. Guðmundsson
sagnfræðingur og alþjóðastjórnmálafræðingur
(Ljósmynd: Frá Kaupmannahöfn. Eigandi: Hjörtur J. Guðmundsson)