Með Ísland á meðal umsóknarríkja

Fyrr í þessum mánuði tók norska ríkisútvarpið NRK viðtal við Mörtu Kos, stækkunarráðherra Evrópusambandsins, sem sagði meðal annars aðspurð að umsóknarferlið að sambandinu snerist að miklu leyti um það að umsóknarríki aðlöguðu sig að löggjöf þess. Spurð hvort hægt væri að fá varanlegar undanþágur til dæmis í sjávarútvegs- og landbúnaðarmálum sagði hún: „Almennt verða ný ríki að samþykkja allar reglurnar. En stundum er mögulegt að fá aðlögunartímabil.“

Hins vegar vakti tafla uppi á vegg á skrifstofu Kos yfir ríki sem sótt hafa um inngöngu í Evrópusambandið athygli fréttamanns NRK. Þar voru Albanía, Bosnía og Hersegóvína, Georgía, Kosovó, Moldóva, Norður-Makedónía, Serbía, Úkraína, Tyrkland – og Ísland. Nokkuð sem ekki þarf að koma á óvart í ljósi þess að fulltrúar sambandsins hafa ítrekað lýst því yfir á liðnum árum að umsókn þáverandi vinstristjórnar frá 2009 um inngöngu í það hafi aldrei verið dregin til baka.

Hins vegar er um að ræða fullt tilefni til þess að leggja fram þingsályktunartillögu á Alþingi um að umsóknin frá 2009 verði dregin formlega til baka. Þó forystumönnum Evrópusambandsins hafi mátt vera fullljóst hvert markmiðið væri með bréfi sem þáverandi utanríkisráðherra sendi þeim fyrir tíu árum síðan um að Ísland væri ekki lengur umsóknarríki er ljóst að nauðsynlegt er að orða hlutina með þeim hætti að ekki sé á nokkurn hátt hægt að túlka þá eftir hentugleika.

Flokkur fólksins hefur á undanförnum árum ítrekað lagt fram þingsályktunartillögu á Alþingi þess efnis að umsókn þáverandi vinstristjórnar um inngöngu í Evrópusambandið yrði dregin til baka. Síðast í september síðastliðnum. Við hæfi væri að leggja fram hliðstæða tillögu sem fæli í sér ákveðna leiðréttingu og hefði því ekkert að gera með fyrirhugað þjóðaratkvæði um það hvort sózt verði eftir inngöngu í sambandið. Varla myndi Flokkur fólksins leggjast gegn henni?

Hjörtur J. Guðmundsson
sagnfræðingur og alþjóðastjórnmálafræðingur

(Ljósmynd: Fáni Evrópusambandsins. Eigandi: Hjörtur J. Guðmundsson)