Fjölmargir einstaklingar hafa tekið sæti í framkvæmdastjórn Evrópusambandsins á liðnum árum og áratugum sem verið hafa með dóma á bakinu fyrir spillingu heima fyrir, til rannsóknar fyrir meinta spillingu eða verið sakaðir um slíkt. Það hefur þó ekki komið í veg fyrir að þeir tækju sæti í henni með blessun þings sambandsins. Framkvæmdastjórnin hefur fyrir vikið oft virkað í gegnum tíðina eins og skjól fyrir spillta stjórnmálamenn frá ríkjum Evrópusambandsins.
Meðal annars á þetta við um núverandi forseta framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, Ursulu von der Leyen sem var þegar hún tók við embættinu til rannsóknar fyrir að hafa sem varnarmálaráðherra Þýzkalands ráðstafað háum fjárhæðum af skattfé í trássi við lög. Það kom ekki í veg fyrir embættistöku hennar. Þá bar forveri hennar, Jean Claude Juncker, sem forsætisráðherra Lúxemborgar ábyrgð á hundruðum leynilegra skattasniðgöngusamninga við stórfyrirtæki.
Meðal áhugaverðari dæma um slíkt er Peter Mandelson sem neyddist tvisvar til þess að segja af sér sem ráðherra í ríkisstjórn Verkamannaflokksins í Bretlandi í kringum síðustu aldarmót vegna hneykslismála. Að lokum var brugðið á það ráð að tilnefna hann í framkvæmdastjórn Evrópusambandsins þar sem hann fór með viðskiptamál þess 2004-2008. Miklu valdameira embætti og utan seilingar brezkra kjósenda. Fjölmörgum hliðstæðum málum er fyrir að fara.
Mikill meirihluti íbúa ríkja Evrópusambandsins taldi spillingu þrífast innan stofnana sambandsins samkvæmt niðurstöðum skoðanakönnunar sem gerð var fyrir framkvæmdastjórn þess árið 2013 eða 70%. Þar af 84% aðspurðra í Svíþjóð, 82% í Þýzkalandi og 80% í Austurríki. Hliðstætt hafði komið fram árin á undan. Viðbrögð framkvæmdastjórnarinnar voru þau að hætta einfaldlega að spyrja um spillingu í stofnunum Evrópusambandsins í könnunum hennar.
Dæmin hér að ofan eru rétt toppurinn á ísjakanum og ekki einu sinni það. Innan Evrópusambandsins yrði þessi spilling að vandamáli okkar Íslendinga. Vart er að furða að einungis 4% íbúa ríkja sambandsins treysti stofnunum þess bezt til þess að taka á spillingarmálum. Tal um að innganga í Evrópusambandið væri til þess fallin að draga úr spillingu hér á landi stenzt þannig ekki nokkra skoðun. Með því er ljóst að farið yrði einfaldlega úr öskunni í eldinn í þeim efnum.
Hjörtur J. Guðmundsson
sagnfræðingur og alþjóðastjórnmálafræðingur
(Ljósmynd: Höfuðstöðvar framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins. Eigandi: almathias)