Full ástæða er til að fagna því að Pawel Bartoszek, þingmaður Viðreisnar og formaður utanríkismálanefndar Alþingis, skuli hafa gengizt við þeirri staðreynd á bloggsíðu sinni nýverið að nærtækast væri að bera Evrópusambandið saman við ríki. Markmiðið með samrunaþróuninni innan sambandsins allt frá upphafi hefur enda verið að til yrði að lokum evrópskt sambandsríki. Nokkuð sem Evrópusambandssinnar á meginlandinu ræða óhikað ólíkt því sem gerist hérlendis.
Til að mynda sendi Valérie Haye, forseti Renew Europe, þingflokks frjálslyndra á þingi Evrópusambandsins, Ursulu von der Leyen, forseta framkvæmdastjórnar sambandsins, og António Costa, forseta leiðtogaráðs þess, nýverið bréf þess efnis að tímabært væri að sambandið yrði að stórveldi (e. superpower) og kæmi sér enn fremur upp eigin sjálfstæðri hernaðargetu, sem sagt eigin her, en evrópsku samtökin ALDE, sem Viðreisn tilheyrir, eiga aðild að Renew Europe.
Tilefni skrifa Pawels voru pistlar eftir mig þar sem ég hef bent á þá staðreynd að vægi ríkja innan Evrópusambandsins fer fyrst og fremst eftir íbúafjölda þeirra þegar ákvarðanir eru teknar í þeim stofnunum sambandsins þar sem þau eiga fulltrúa. Nokkuð sem í sjálfu sér væri ekki óeðlilegt í ljósi lokamarkmiðs samrunaþróunarinnar innan Evrópusambandsins en Pawel kom einmitt réttilega inn á það í færslunni að framkvæmdastjórn sambandsins væri eins konar ríkisstjórn þess.
Með sömu rökum vill Pawel meina að við ættum að segja okkur frá Sameinuðu þjóðunum, Norðurlandaráði og Evrópuráðinu. Þar er þó gjörólíku saman að jafna eins og formaður utanríkismálanefndar Alþingis ætti að þekkja. Ástæða þess að þetta skiptir máli í tilfelli Evrópusambandsins er eðli þess sem felst í yfirþjóðlegu löggjafar-, framkvæmda- og dómsvaldi yfir nær öllum sviðum ríkja sambandsins sem ekki á við í hinum tilfellunum. Svo ekki sé talað um lokamarkmiðið.
Til að mynda er ástæða fyrir því að breyta þyrfti stjórnarskránni áður en Ísland gæti gengið í Evrópusambandið til þess að heimila það mikla valdaframsal sem fælist í inngöngu í sambandið sem þurfti ekki vegna aðildar landsins að Evrópuráðinu, Norðurlandaráði og Sameinuðu þjóðunum. Þarna er vitanlega fyrir að fara grundvallarmun og óneitanlega ákveðið áhyggjuefni að formaður utanríkismálanefndar þingsins skuli ekki vera betur upplýstur í þeim efnum.
Kæmi til þess að Ísland gengi í Evrópusambandið fengjum við sex þingmenn á þingi þess af yfir 700. Á við hálfan þingmann á Alþingi. Staðan yrði margfalt verri í ráðherraráðinu, valdamestu stofnun sambandsins, þar sem vægi Íslands yrði allajafna einungis á við 5% af alþingismanni. Eins og fram kemur á vef Evrópusambandsins eru langflestar ákvarðanir ráðsins teknar þar sem vægi ríkja þess fer einkum eftir íbúafjölda þeirra. Þetta yrði svonefnt sæti við borðið.
Hjörtur J. Guðmundsson
sagnfræðingur og alþjóðastjórnmálafræðingur
(Ljósmynd: Höfuðstöðvar framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins. Eigandi: almathias)