Kemur beinlínis fram í greinargerðinni

Frumvarp Þorbjargar Sigríðar Gunnlaugsdóttur dómsmálaráðherra um afhendingu farþegalista vegna flugs innan Schengen-svæðisins var samþykkt á Alþingi fyrir helgi en yfirlýstur tilgangur þess var að efla öryggi á landamærum Íslands að öðrum aðildarríkjum svæðisins með því að skylda öll flugfélög innan þess til þess að afhenda farþegalista. Veruleikinn er hins vegar sá að umræddir listar eru í reynd svo gott sem gagnslausir þegar kemur að löggæzlu á landamærunum.

Fram kemur beinlínis í greinargerð frumvarpsins hvers vegna farþegalistarnir vegna flugs frá öðrum aðildarríkjum Schengen-svæðisins eru svo gott sem gagnslausir. Það er að segja svonefndar PNR-upplýsingar. Þannig segir þar réttilega að munurinn á þeim og svonefndum API-upplýsingum, sem afhentar eru vegna flugs frá ríkjum utan svæðisins, sé sá að þeim sé safnað af flugfélögum eða ferðaskrifstofum við farmiðabókarnir en séu ekki staðfestar með vegabréfum.

„Nokkur munur er á API- (e. Advance Passenger Information) og PNR-upplýsingum (e. Passenger Name Record). Farþegabókunargögnum, PNR-upplýsingum, er safnað í viðskiptalegum tilgangi, þ.e. þær upplýsingar sem flugfélag safnar við farmiðabókun eða ferðaskrifstofa safnar við bókun á tiltekinni ferð, t.d. um greiðslumáta við farmiðakaup og hvenær bókun átti sér stað,“ segir þannig í greinargerðinni með frumvarpi dómsmálaráðherra og síðan áfram:

„Farþegaupplýsingum úr vegabréfum (API-upplýsingum) er hins vegar safnað við innritun farþega fyrir flug og þær eru sendar því ríki sem farþegi ferðast til. Fyrir flugferðir innan Schengen-svæðisins þarf almennt aðeins að afhenda PNR-upplýsingar en fyrir ferðir utan Schengen-svæðisins þurfa flugfélög almennt að afhenda API- og PNR-upplýsingar.“ Þess má geta að Evrópusambandið skilgreinir PNR-upplýsingarnar fyrir vikið sem „óstaðfestar upplýsingar“.

Með öðrum orðum er hægt að koma hingað til lands frá öðrum aðildarríkjum Schengen-svæðisins án þess að gefa upp réttar upplýsingar. Þar á meðal nöfn enda hafa slík mál ítrekað komið upp. Þeir, sem komizt hafa í kast við lögin og/eða hafa lögbrot í hyggju, eru eðli málsins samkvæmt líklegri en aðrir til þess að veita rangar upplýsingar. Það er enda ekki að ástæðulausu að brotamenn koma nær eingöngu hingað til lands frá eða í gegnum önnur ríki innan svæðisins.

Hjörtur J. Guðmundsson
sagnfræðingur og alþjóðastjórnmálafræðingur

(Ljósmynd: Frá Keflavíkurflugvelli. Eigandi: Jeff Hitchcock – Creative Commons Attribution 2.0 Generic)