Fram kom í máli Ingibjargar Davíðsdóttur, þingmanns Miðflokksins, í umræðum á Alþingi í gær um bókun 35 við EES-samninginn að ósk um að Markús Sigurbjörnsson, fyrrverandi forseti Hæstaréttar, yrði kallaður fyrir utanríkismálanefnd þingsins við umfjöllun nefndarinnar um málið hefði verið hafnað. Markús er einn þeirra lögspekinga sem lýst hefur því yfir og fært gild rök fyrir því að bókunin fari í bága við fullveldisákvæði stjórnarskrár lýðveldisins.
Markús benti þannig á það í grein í afmælisriti EFTA-dómstólsins árið 2014 að ekki hefði verið mögulegt að ganga lengra við innleiðingu bókunar 35 en gert var þegar aðildin að EES-samningnum var samþykkt fyrir rúmum 30 árum síðan sem fólst í þeirri leið sem farin var með 3. grein laga um Evrópska efnahagssvæðið. Annað, sem sagt fyrirliggjandi frumvarp Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur, formanns Viðreisnar, hefði ekki rúmast innan stjórnarskrárinnar.
„Staðreyndin er hins vegar sú að ekki var mögulegt að ganga lengra innan þess ramma sem stjórnarskrá Íslands setur. Stjórnarskráin gerir hvorki ráð fyrir því að takmarka megi fullveldi lýðveldisins með framsali löggjafarvalds til alþjóðastofnana né að landslög, sem byggjast á alþjóðlegum skuldbindingum eins og EES-samningnum, geti eingöngu af þeim sökum öðlast ríkari stöðu en önnur almenn löggjöf,“ segir þannig í íslenzkri þýðungu í greininni og áfram:
„Með öðrum orðum gerir stjórnarskráin ekki ráð fyrir því að árekstur á milli ákvæða almennra laga verði leystur með öðrum hætti en beitingu viðurkenndra lögskýringarreglna og veitir löggjafanum hvorki vald né svigrúm til þess að veita tilteknum almennum lögum alfarið forgang gagnvart öðrum.“ Þannig má ljóst vera að frumvarp formanns Viðreisnar verður ekki samþykkt að óbreyttri stjórnarskránni eigi ekki að fara í bága við fullveldisákvæði hennar.
Fróðlegt hefur verið að sjá hversu illa tilvitnun í áðurnefnd orð Markúsar hefur farið í fulltrúa stjórnarmeirihlutans. Ekki sízt Dagbjörtu Hákonardóttur, þingmann Samfylkingarinnar, sem vildi meina á Alþingi í gær að svo margt hefði breytzt síðan 2014 að skrif Markúsar væru úreld. Til að mynda dómur Hæstaréttar þar sem komið hefði fram að bókunin hefði ekki verið rétt innleidd í upphafi. Engin tilraun var hins vegar gerð til þess að hrekja rökstuðning Markúsar.
Hins vegar hafði Dagbjört á orði að Markús hefði ekki verið vinsæll í röðum „evróskeptíkera“ sem er einmitt enn frekari ástæða til þess að hlusta á hann. Hvaða hagsmuni hefur hann af því að vara við því að bókun 35 færi í bága við stjórnarskrána að henni óbreyttri ef það væri ekki einfaldlega satt og rétt? Alls enga. Ólíkt sumum öðrum lögspekingum sem þeir sem styðja samþykkt frumvarpsins hafa vísað til og eru yfirlýstir stuðningsmenn inngöngu í Evrópusambandið.
Markús byggði einfaldlega málflutning sinn fyrst og fremst á fullveldisákvæðum stjórnarskrárinnar sem hafa ekki breytzt. Hæstiréttur breytir stjórnarskránni vitanlega ekki. Vilji þingmenn bregðast við niðurstöðu dómstólsins verður það vitanlega ekki gert með samþykkt frumvarps sem í bezta falli fyrir stuðningsmenn þess er deilt um á meðal lögspekinga hvort standist stjórnarskrána. Stjórnarskráin hlýtur að minnsta kosti að njóta vafans í þessum efnum.
Hjörtur J. Guðmundsson
sagnfræðingur og alþjóðastjórnmálafræðingur
(Ljósmynd: Alþingishúsið. Eigandi: Hjörtur J. Guðmundsson)