Færi þvert á aðrar forgangsreglur

Komi til þess að frumvarp Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur, utanríkisráðherra og formanns Viðreisnar, um bókun 35 við EES-samninginn verði samþykkt verður til ný forgangsregla í íslenzkum rétti. Ólíkt þeim forgangsreglum sem fyrir eru, þar sem yngri lög ganga fyrir þeim sem eldri eru og sértækari fyrir almennari, mun nýja reglan miðast við það eitt að um sé að ræða innleiðingu á regluverki frá Evrópusambandinu í gegnum samninginn og í raun fara þvert á hinar. Regluverkið frá sambandinu mun þannig hafa forgang á íslenzk lög jafnvel þó þau séu sértækari og/eða yngri en það.

Fyrrverandi hæstaréttardómarinn Jón Steinar Gunnlaugsson ræddi þetta á Facebook í gær vegna umræðna um frumvarpið á Alþingi þar sem hann sagði: „Í þessu felast fyrirmæli um að eldri reglur skv. EES-samningnum skuli ganga fyrir yngri lögum sem Alþingi setur ef ekki er efnislegt samræmi á milli. Þetta felur það í sér að löggjafarvald Alþingis er takmarkað, því að ný sett lög á Alþingi víkja auðvitað ævinlega til hliðar eða fella niður eldri lagareglur ef efnislegt ósamræmi er til staðar. Í reynd er því lagasetningarvald Alþingis takmarkað að þessu leyti án þess að stjórnarskráin heimili slíkt.“

Frumvarpið, verði það samþykkt, muni þar með fara í bága við stjórnarskrána. „Ekki verður annað séð en að sú skipan sem felst í þessu frumvarpi standist ekki nema stjórnarskránni sé fyrst breytt og í hana sett ákvæði sem heimilar þetta. Alþingismönnum er skylt að haga störfum sínum að lagasetningu samkvæmt þeim heimildum sem stjórnarskráin veitir. Þess vegna hefur Alþingi ekki stjórnskipulega heimild til að lögfesta þetta frumvarp.“ Fleiri lögspekingar hafa að sama skapi varað við því að frumvarpið feli í sér framsal löggjafarvalds sem fari í bága við fullveldisákvæði stjórnarskrárinnar.

Hjörtur J. Guðmundsson
sagnfræðingur og alþjóðastjórnmálafræðingur

(Ljósmynd: Utanríkisráðuneytið. Eigandi: Hjörtur J. Guðmundsson)