Fleiri andvígir bókun 35 en hlynntir

Fleiri voru andvígir frumvarpi um innleiðingu bókunar 35 við EES-samninginn en hlynntir í skoðanakönnun sem Prósent vann fyrir Heimssýn, hreyfingu sjálfstæðissinna í Evrópumálum, síðastliðið haust eða 39% gegn 35%. Ef aðeins er miðað við þá sem tóku afstöðu var niðurstaðan 52,7% gegn 47,3%. Miklu fleiri stuðningsmenn Miðflokksins, Sjálfstæðisflokksins, Flokks fólksins og Framsóknarflokksins voru andvígir frumvarpinu en þeir sem sögðust vera því hlynntir.

Fram kom í fréttatilkynningu frá Heimssýn vegna könnunarinnar, sem er sú eina sem gerð hefur verið vegna málsins, að miðað við þá sem tóku afstöðu með eða á móti hefðu 79% stuðnings­manna Miðflokks­ins verið á móti frum­varp­inu, 72% stuðnings­manna Sjálf­stæðis­flokks­ins, 69% stuðnings­manna Flokks fólks­ins og 66% stuðnings­manna Fram­sókn­ar­flokks­ins. Mestur stuðningur við það hefði verið á meðal stuðningsmanna Viðreisnar og Samfylkingarinnar.

Hjörtur J. Guðmundsson
sagnfræðingur og alþjóðastjórnmálafræðingur

(Ljósmynd: Stytta Jóns Sigurðssonar forseta. Eigandi: Hjörtur J. Guðmundsson)