„Skoðun mín hefur ekkert breytzt,“ sagði Eyjólfur Ármannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og þingmaður Flokks fólksins, í samtali við mbl.is 28. desember síðastliðinn spurður hvort hann væri enn þeirrar skoðunar bókun 35 við EES-samninginn færi gegn stjórnarskránni. Eyjólfur hafði skömmu áður lýst því yfir að hann ætlaði að greiða atkvæði með samþykkt frumvarps um innleiðingu bókunarinnar þar sem hann væri kominn í ríkisstjórn.
Fram að þingkosningunum í lok nóvember hafði Eyólfur ítrekað lýst yfir andstöðu sinni við bókun 35 og að hún færi í bága við stjórnarskrána. „Það er alveg kristaltært að ef þetta verður sett í lög mun það ganga gegn löggjafarvaldinu, um framsal löggjafarvalds, og ganga gegn stjórnarskránni,“ sagði hann til að mynda í ræðu á Alþingi 7. marz í fyrra. Af þeim sökum hefði bókunin ekki verið innleidd með þeim hætti sem stæði til með frumvarpi utanríkisráðherra.
„Þetta er algerlega galið,“ sagði Eyjólfur að sama skapi á Útvarpi Sögu 12. september síðastliðinn. Sagðist hann vona að ekki yrði af því að frumvarp um innleiðingu bókunar 35. „Ég bara trúi ekki öðru. Við munum allavega, sem höfum áhuga á að verja fullveldi þessa samfélags, fullveldi Íslands, þeir munu berjast gegn þessu og ég ætla að gera það.“ Eftir að hann hafði sezt í ríkisstjórn sagðist hann hins vegar af þeim sökum ætla að samþykkja frumvarpið.
Fulltrúar Flokks fólksins hafa í umræðum um bókun 35 á Alþingi undanfarna daga ítrekað lýst því yfir að þingflokkur hans hafi einfaldlega skipt um skoðun á málinu eftir að hafa kynnt sér það betur. Eyjólfur hefur hins vegar í það minnsta hvað hann sjálfan varðar sagt að hann hafi alls ekki skipt um skoðun á málinu. Engar nýjar upplýsingar lágu enda fyrir vegna þess í desember síðastliðnum. Það eina sem breyttist var að flokkurinn fór í ríkisstjórn.
Hjörtur J. Guðmundsson
sagnfræðingur og alþjóðastjórnmálafræðingur
(Ljósmynd: Stjórnarráðshúsið. Eigandi: Hjörtur J. Guðmundsson)