Til marks um örvæntingu stjórnarinnar

Haldinn er þingfundur á Alþingi í dag en þetta er aðeins í þriðja skiptið sem gripið er til þess ráðs að boða til slíks fundar þvert á þá almennu reglu þingsins að funda ekki á sunnudögum og annað skiptið frá stofnun lýðveldisins. Hin tvö skiptin voru við afar sérstakar aðstæður. Annars vegar 2. ágúst 1914 þar sem grípa þurfti til neyðarráðstafana vegna fyrri heimsstyrjaldarinnar sem hafizt hafði nokkrum dögum áður. Hins vegar 2015 þar sem klára þurfti af­greiðslu frum­varpa vegna gjald­eyr­is­hafta­mála svo hægt yrði að ljúka þeirri vinnu áður en markaðir opnuðu á mánu­degi svo tryggja mætti jafn­ræði markaðsaðila.

Fjallað er um málið á mbl.is og vísað þar meðal annars til viðtals miðilsins við Helga Brernódusson, þáverandi skrifstofustjóra Alþingis, árið 2015 þar sem hann sagði að þó stundum hafi fundir verið settir aðfararnótt sunnudags til dæmis við þinglok, þá sem framhald af fundi á laugardegi, væri regla þingsins afdráttarlaus: „Regl­an er þó skýr, að Alþingi held­ur ekki þing­fundi á sunnu­dög­um. Henni hef­ur verið fylgt síðustu ára­tug­ina býsna stíft.“ Vitnað er einnig til þeirra orða Össurar Skarphéðinssonar, þáverandi þingmanns Samfylkingarinnar, að til þyrfti „eitthvað mjög mikilvægt“ til þess að funda á sunnudegi.

Fyrir liggur hins vegar að engin knýjandi þörf er fyrir hendi að þessu sinni, líkt og stríðsástandi, afnám gjaldeyrishafta eða annað slíkt, sem kallar á það að þingfundur fari fram á sunnudegi í stað þess að hann fari fram á morgun. Fáum hefur þó líklega dulizt sú örvænting sem einkennt hefur framgöngu stjórnarmeirihlutans og umrædd ákvörðun er ásamt öðru til marks um. Meirihlutinn veit ljóslega ekki sitt rjúkandi ráð og er fyrir vikið kominn á þann stað að grípa til örþrifaráða í vaxandi örvæntingu sinni einkum vegna eigin skipulags- og getuleysis. Vafalaust eigum við eftir að sjá fleiri birtingarmyndir þess.

Hjörtur J. Guðmundsson
sagnfræðingur og alþjóðastjórnmálafræðingur

(Ljósmynd: Alþingishúsið. Eigandi: Hjörtur J. Guðmundsson)