Deilan snerist um vinnubrögðin

Halla Hrund Logadóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, og oddviti hans í Suðurkjördæmi, lýsti því yfir í gær að hún hefði ekki tekið þátt í málþófinu gegn frumvarpi ríkisstjórnarinnar um veiðigjöld vegna þess að hún væri sammála áherzlu stjórnarinnar á hækkun gjaldanna. Deilan snerist hins vegar ekki aðallega um það hvort hækka ætti gjöldin heldur fyrst og fremst hvernig það væri gert. Þetta kom margoft fram í umræðunni á Alþingi og ekki sízt hjá samflokksmönnum hennar.

Meira að segja Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi (SFF) lýstu því yfir skömmu eftir að umræðan um málið hófst á Alþingi, að breytingar á veiðigjöldum þyrftu að eiga sér stað í skrefum og með samtali eins og til dæmis fram kom í máli Heiðrúnar Lindar Marteinsdóttur, framkvæmdastjóra samtakanna, á Bylgjunni 11. maí. Sjávarútvegurinn væri reiðubúinn í samtal um hækkun gjaldanna með þeim hætti. Stórfelld hækkun í einu vetfangi myndi hins vegar fara illa með greinina.

Hins vegar benti Heiðrún einnig á það að Hanna Katrín Friðriksson, atvinnuvegaráðherra og þingmaður Viðreisnar, hefði lokað á allt samtal við sjávarútveginn. Ráðherrann hefði skorað á sjávarútveginn á ársfundi SFS að opna bókhald greinarinnar og sýna áhrifin á rekstur hennar. Þeirri áskorun hefði verið tekið og það framkvæmt í samstarfi við Deloitte. Í framhaldinu hefði Heiðrún óskað eftir fundi með Hönnu Katrínu en ráðherrann hins vegar ekki verið til í að ræða málið.

„Við vitum að við erum með ríkisstjórn sem hefur sagt: Við ætlum að hækka veiðigjald. En við erum bara þeirrar skoðunar að það skipti máli hvernig það sé gert,“ sagði Heiðrún enn fremur. Hún sagðist viss um að ef Hanna Katrín hefði verið reiðubúin að ræða málin hefði verið hægt að komast að einhverri niðurstöðu. Ríkisstjórnin var eins ljóslega ekki til í viðræður um þinglok við stjórnarandstöðuna og stefndi strax í maí og líklega fyrr að því beita kjarnorkuákvæði þingskaparlaga.

Væntanlega hefur Halla Hrund fyrir vikið ekkert við vinnubrögð ríkisstjórnarinnar að athuga sem meðal annars hafa verið harðlega gagnrýnd af þeim sveitarfélögum sem eiga mest undir þegar sjávarútvegur er annars vegar og sem varað hafa við afleiðingum frumvarps atvinnuvegaráðherra. Ekki sízt í Suðurkjördæmi. Að öðrum kosti hefði hún væntanlega staðið með samflokksmönnum sínum og flokksformanni í baráttunni gegn vinnubrögðum ríkisstjórnarinnar.

Hjörtur J. Guðmundsson
sagnfræðingur og alþjóðastjórnmálafræðingur

(Ljósmynd: Alþingishúsið. Eigandi: Hjörtur J. Guðmundsson)