Fulltrúar Evrópusambandsins, sem höfðu það verkefni með höndum að hafa eftirlit með framgangi umsóknar ríkisstjórnar Samfylkingarinnar og Vinstri grænna um inngöngu í sambandið á sínum tíma, lýstu því ítrekað yfir að það ylli verulegum áhyggjum að stjórnin væri ekki samstíga í afstöðu sinni til þess hvort ganga ætti í sambandið.
Til að mynda segir þannig í ályktun frá 2012 sem þingmaðurinn Cristian Dan Preda ritaði sem fulltrúi utanríkismálanefndar þings Evrópusambandsins um framvindu umsóknarinnar: „Þing Evrópusambandsins ítrekar áhyggjur sínar af pólitískum ágreiningi innan ríkisstjórnarinnar og stjórnmálaflokkanna varðandi inngönguna í það“.
Vísað var til þeirrar staðreyndar að á meðan Samfylkingin var hlynnt inngöngu í Evrópusambandið voru Vinstri grænir það ekki. Fyrir vikið var engin samstaða um það í ríkisstjórninni þegar samþykkja þurfti til dæmis lokun einstakra kafla umsóknarferlisins. Gerðu einstakir ráðherrar það einungis með alls konar fyrirvörum.
Við erum aftur á hliðstæðum slóðum þar sem ríkisstjórn Samfylkingarinnar, Viðreisnar og Flokks fólksins hefur sett inngöngu í Evrópusambandið á dagskrá með fyrirhuguðu þjóðaratkvæði í þeim efnum. Tveir fyrrnefndu flokkarnir vilja ganga í sambandið, þó hvorugur hafi í reynd lagt áherzlu á það fyrir þingkosningarnar, en sá síðastnefndi ekki.
Meira að segja Þorsteinn Pálsson, guðfaðir Viðreisnar, hefur bent á að það færi gegn þingræðisreglunni að utanríkisráðherra undirritaði samning um inngöngu í Evrópusambandið án þingmeirihluta fyrir því. Forsenda þess að setja málið á dagskrá er einfaldlega ríkisstjórn samstíga um að ganga í sambandið. Þar með talið að mati þess sjálfs.
Hjörtur J. Guðmundsson
sagnfræðingur og alþjóðastjórnmálafræðingur
(Ljósmynd: Stjórnarráðshúsið. Eigandi: Hjörtur J. Guðmundsson)
