Stjórnarskrárbrot „ekkert stórmál“

„Þetta er ekk­ert stór­mál þannig lagað,“ sagði Eyjólfur Ármannson, nýr sam­göngu- og sveita­stjórn­ar­ráðherra og þingmaður Flokks fólksins, í samtali við mbl.is í gær um fyrirhugað frumvarp Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur utanríkisráðherra um svonefnda bókun 35 við EES-samninginn sem felur í sér að almenn lög hér á landi sem eigi uppruna sinn í regluverki Evrópusambandsins í gegnum samninginn gangi framar löggjöf sem er innlend að uppruna.


Ráðherrann hefur lýst því yfir að hann hafi í hyggju að styðja frumvarpið en fyrir kosningar, þegar hann var í stjórnarandstöðu, sagði hann um að ræða stjórnarskrárbrot sem varðaði fullveldi landsins. Hét hann því að berjast gegn samþykkt þess. Sem ráðherra hyggst hann hins vegar samþykkja það sem fyrr segir. Fyrst réttlætti hann það með því að kveðið væri á um málið í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar áður en honum var bent á að það væri einfaldlega ekki rétt.

Hins vegar segir Eyjólfur aðspurður í Morgunblaðinu í dag að hann telji enn að um stjórnarskrárbrot sé að ræða en ætli engu að síður að styðja fyrirhugað frumvarp Þorgerðar Katrínar. Spurður hvort hann muni hugssanlega sitja hjá við afgreiðslu málsins segir hann að það geti komið til greina. Flokkur fólksins sé hins vegar að ná svo mörgum málum í gegn með stjórnarsamstarfinu eins og að strand­veiðitíma­bilið verði 48 dag­ar. Það segir hann stórmál ólíkt stjórnarskrárbroti.

Hjörtur J. Guðmundsson
sagnfræðingur og alþjóðastjórnmálafræðingur

(Ljósmynd: Stjórnarráðshúsið. Eigandi: Hjörtur J. Guðmundsson)