Hlökkuðu yfir óförum Íslands

Fall viðskiptabankanna þriggja hér á landi haustið 2008 var ekki mörgum fagnaðarefni. Þeir voru þó til og ófáir í þeim röðum sátu þá á þingi Evrópusambandsins. Daniel Hannan, þáverandi þingmaður brezka Íhaldsflokksins á þinginu, greindi frá þessu í samtali Morgunblaðið sumarið 2010. Sagði hann af því tilefni að Ísland ætti ekki marga vini á þingi sambandsins. Þá hefði ríkt ánægja þar á bæ yfir því að bankahrunið hefði orðið til þess að landið hefði loks sótt um inngöngu í það.

Flestir á þingi Evrópusambandsins hefðu þannig litið á árangur Íslands utan þess í gegnum tíðina hornauga. „Þeir litu svo á að þið hefðuð alla kostina við veru í sambandinu en tækjuð ekki þátt í öðrum hlutum þess. Þegar þið síðan lentuð í þessum erfiðleikum með bankana ykkar komu margir þeirra til mín, vegna þess að ég er þekktur fyrir að vera mikill stuðningsmaður Íslands, og hlökkuðu yfir því að ykkur gengi ekki nógu vel og sögðu að þið hefðuð í raun fengið það sem þið ættuð skilið. Nú þyrftuð þið að ganga í Evrópusambandið og uppfylla skilyrði sambandsins enda væri kominn tími til.“

Talað hefði verið um það að við Íslendingar hefðum loksins séð villur okkar vegar og sótt um inngöngu í Evrópusambandið. Á sama tíma hefðu þeir haft áhyggjur af áhrifum árangurs Íslands á ríki innan sambandsins. „Það sem hefur angrað þá er sú staðreynd að ef lítið land eins og Ísland getur náð slíkum árangri utan sambandsins eins og þið hafið gert á undanförnum áratugum þá gæti það leitt til þess að ríkin telji hag sínum ekki bezt borgið innan Evrópusambandsins.“

Hjörtur J. Guðmundsson
sagnfræðingur og alþjóðastjórnmálafræðingur

(Ljósmynd: Þinghús Evrópusambandsins í Strasbourg. Eigandi: Evrópusambandsþingið)