Við höfum lengi fengið að heyra fullyrðingar þess efnis frá talsmönnum þess að Ísland gangi í Evrópusambandið að með inngöngu í það myndi verðlag á matvælum hér á landi lækka verulega. Oftar en ekki hefur verið látið eins og stórkostleg breyting yrði í þeim efnum. Hins vegar er lítill fótur fyrir því þegar málið er skoðað heildstætt ofan í kjölinn. Margt bendir þvert á móti til þess að matvælaverð myndi miklu fremur hækka kæmi til þess að gengið yrði í sambandið.
Verðlag á Íslandi er vissulega hátt í evrópskum samanburði en sömuleiðis hérlend laun. Það er verð á vinnu. Vöruverð segir lítið nema einnig sé tekið með hvað fáist fyrir launin. Verðlag er þannig yfirleitt langlægst í Rúmeníu og Búlgaríu en einnig þarlend laun. Hins vegar er ein helzta ástæða hærra verðlags hér á landi samkvæmt rannsóknum flutningskostnaður til landsins. Landfræðileg staðsetning Íslands myndi vitanlega ekki breytast við inngöngu í Evrópusambandið.
Vegna viðskiptasamninga Íslands við Evrópusambandið sem og einhliða ákvarðana íslenzkra stjórnvalda eru í dag engir tollar á innfluttar vörur frá ríkjum þess fyrir utan ýmsar landbúnaðarvörur. Hið sama á við um innflutning frá öðrum ríkjum heimsins. Með inngöngu í sambandið færum við hins vegar inn fyrir tollmúra þess gagnvart öðrum ríkjum og þyrftum því að greiða tolla vegna alls kyns varnings sem í dag er fluttur tollfrjálst til landsins sem aftur myndi hækka verðlag.
Sagt í þágu neytendaverndar
Mikilvægt er þannig að hafa hugfast að Evrópusambandið er gamaldags tollabandalag í grunninn (sem stefnir að því að verða að sambandsríki og er þegar langt komið á þeirri leið) en slík bandalög eru í raun andstæða frjálsra milliríkjaviðskipta. Markmið tollabandalaga er þannig fyrst og fremst að vernda framleiðslu innan þeirra fyrir utanaðkomandi samkeppni. Iðulega þar sem framleiðsla innan þeirra er ekki samkeppnishæf í þeim efnum. Sem sagt dýrari og óhagkvæmari.
Meðal annars með tilkomu Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar (WTO) árið 1995 og aukinni áherzlu á gerð fríverzlunarsamninga hafa tollar allajafna farið lækkandi víðast hvar í heiminum á undanförnum árum. Hins vegar brugðust ýmsir við þeirri þróun, ekki sízt Evrópusambandið, með því að koma í staðinn á tæknilegum viðskiptahindrunum í formi regluverks í sama tilgangi. Vernda framleiðslu innan vébanda sinna með því að gera innfluttar vörur dýrari fyrir neytendur.
Hins vegar hefur ekki vantað að slíkar tæknilegar viðskiptahindranir hafi verið sagðar í þágu neytendaverndar. Vitanlega hefur það hljómað betur en að viðurkenna að verið væri að hygla innlendum framleiðendum, minnka það vöruúrval sem neytendum stæði til boða, hækka vöruverð og leggja stein í götu frjálsra milliríkjaviðskipta. Vegna aðildarinnar að EES-samningnum höfum við Íslendingar ekki farið varhluta af þessu þó það yrði miklu verra innan Evrópusambandsins.
Kom næstum ekki til Íslands
Til að mynda munaði litlu að Costco kæmi ekki til Íslands vegna EES-samningsins. Upphaflega stóð þannig til að opna útibú frá starfsemi fyrirtækisins í Kanada og að í boði yrði miklu meira af kanadískum og bandarískum vörum en raunin varð. Eftir að forsvarsmenn Costco ráku sig á samninginn var ákveðið að opna í staðinn útibú frá starfsemi fyrirtækisins í Bretlandi, sem var þá enn innan Evrópusambandsins, þar sem brezkir starfsmenn þess þekktu reglur sambandsins.
Mörg fleiri dæmi mætti nefna um slík áhrif vegna íþyngjandi reglna frá Evrópusambandinu. Heildsölufyrirtækið Innnes hefur til að mynda nánast hætt að flytja inn matvörur frá Bandaríkjunum einkum af þessum ástæðum. Það svaraði einfaldlega ekki kostnaðinum vegna reglnanna. Ekki sízt vegna aðkeyptrar ráðgjafar. Gjarnan væri til dæmis ekki samræmi í regluverkinu. Tiltekin vara væri þannig bönnuð vegna innihaldsefnis sem væri hins vegar leyfilegt í annarri.
Tiltölulega einföld skýring er á slíku ósamræmi. Önnur varan, þessi með bannaða meinta stórhættulega innhaldsefninu, er einfaldlega í samkeppni við framleiðslu innan Evrópusambandsins en hin, með sama innihaldsefni, ekki. En að sjálfsögðu er þetta einungis sagt í þágu neytendaverndar. Hins vegar kemur talsvert annað á daginn þegar málið er skoðuð nánar. Þá kemur þvert á móti í ljós að oftar en ekki sé um að ræða aðgerðir sem fara gegn hagsmunum neytenda.
Meiri kostnaður fyrir neytendur
Fjallað var um það á vef Viðskiptablaðsins 1. október að verð á mörgum matvörum í dönskum stórmörkuðum færi hækkandi vegna nýs regluverks frá Evrópusambandinu sem Danmörk þyrfti að innleiða og fæli í sér svonefnda framleiðendaábyrgð þar sem fyrirtæki greiddu sveitarfélögum kostnað við móttöku, flokkun og meðhöndlun umbúðaúrgangs. Gjöldin réðust af því úr hverju umbúðirnar væru og væru þær úr fleiri en einu efni þyrfti að reikna gjald fyrir hvert þeirra.
Fyrir skömmu var einnig fjallað um það að vegna reglugerðar frá Evrópusambandinu sem til standi að innleiða hér á landi vegna EES-samningsins verði að merkja allar einnota plastvörur sem slíkar á opinbera tungumálinu. Ekki yrði nóg að merkja vörur með límmiða þess efnis eins og gjarnan hefur verið gert vegna innihaldslýsinga á vörum frá ríkjum utan sambandsins með tilheyrandi kostnaði heldur yrði það að vera prentað á umbúðirnar frá framleiðanda þeirra.
Hafa meðal annars Samtök verslunar og þjónustu vakið máls á því að verði reglugerðin innleidd óbreytt mun það að öllum líkindum hækka verð á slíkum vörum. Ekki sízt tíðavörum. Þá kunni það hæglega að draga úr vöruúrvali og leiða til þess að vörur af síðri gæðum verði frekar í boði. Reglugerðin tæki þannig ekki tillit til minni málsvæða eins og Íslands. Sem er ekki í fyrsta sinn sem regluverk frá Evrópusambandinu hannað fyrir margmilljónaþjóðir ratar hingað.
Færum úr öskunni í eldinn
Við þetta má bæta að vorið 2021 hugðist matvælaráðuneytið setja reglugerð sem breyta átti reglum um matvælamerkingar í frjálsræðisátt en hún hefði gert neytendum kleift að skanna vörur með appi eða búnaði í verzlunum og fengið þannig allar upplýsingar um þær á því formi sem hentaði þörfum hvers og eins. Þar á meðal á tungumáli að þeirra eigin vali. Eins gæti appið til dæmis varað við ofnæmisvaldandi innihaldsefnum og upplýst um uppruna vörunnar.
Hins vegar reyndist þetta ekki möguleg vegna reglna frá Evrópusambandinu í gegnum EES-samningsins. Með þessu yrði enda grafið undan verndarhyggju sambandsins í formi tæknilegra viðskiptahindrana sem er vitanlega ekki í boði af hálfu þess. Kostnaðurinn til dæmis af því að endurmerkja vörur hefði þar með heyrt sögunni til og ekki hækkað verðlag þeirra. Fyrir vikið myndi borga sig að flytja mun fleira til landsins en gert er í dag vegna reglna sambandsins.
Vegna EES-samningsins erum við þannig þegar í þeirri stöðu að regluverk frá Evrópusambandinu dregur meðal annars úr vöruúrvali hér á landi og stuðlar að hærra vöruverði. Með inngöngu í sambandið yrði hins vegar farið úr öskunni í eldinn í þeim efnum eins og svo mörgum öðrum. Allt regluverk Evrópusambandsins væri þá undir og Ísland innan tollamúra þess. Langur vegur er einfaldlega frá því að innganga í sambandið þýddi á heildina litið lægra vöruverð.
Hjörtur J. Guðmundsson
sagnfræðingur og alþjóðastjórnmálafræðingur
(Birtist áður í Morgunblaðinu 14. október 2025)
