Sautján fámennustu ríkin á við Þýzkaland eitt

Til þess að hafa sama vægi í ráðherraráði Evrópusambandsins og Þýzkaland eitt með tillit til íbúafjölda, og þar með möguleika á því að hafa áhrif á ákvarðanir sem teknar eru á vettvangi ráðsins, þarf 17 fámennari ríki sambandsins. Vægi ríkja í þeim stofnunum Evrópusambandsins þar sem ríkin eiga fulltrúa fer í flestum tilfellum fyrst og fremst eftir því hversu fjölmenn þau eru. Þar á meðal varðandi sjávarútvegs- og orkumál sem skipta okkur Íslendinga miklu máli.

Hægt er til að mynda að kynna sér þetta með því að nota þar til gerða reiknivél á vefsíðu ráðherraráðs Evrópusambandsins. Þar kemur einnig fram að í langflestum séu ákvarðanir teknar á vettvangi þess með auknum meirihluta þar sem þurfi að vera að baki 55% ríkja sambandsins ásamt 65% íbúafjölda þess. Viðmiðið um fjölda rikja þýðir helming ríkjanna og eitt ríki að auki. Hins vegar er það viðmiðið um íbúafjölda sem vegur eðli málsins samkvæmt þyngst í þessum efnum.


Kæmi til þess að Ísland gengi í Evrópusambandið yrði vægi Íslands með tilliti til fjölda ríkja 3% í ráðherraráðinu. Á við tæplega tvo þingmenn á Alþingi. Vægið yrði síðan margfalt minna með tilliti til viðmiðsins um íbúafjölda, sem eðli málsins samkvæmt skiptir mun meira máli þegar fámenn ríki eru annars vegar, eða einungis 0,08%. Það væri á við það að eiga aðeins 5% hlutdeild í alþingismanni. Þetta væri með öðrum orðið svokallað „sæti við borðið“ innan sambandsins.

Fjölmennustu ríkin, Þýzkaland, Frakkland, Ítalía og Spánn, eru í lykilstöðu í þessum efnum. Til að hægt sé að taka ákvörðun í ráðherraráði Evrópusambandsins þarf allavega tvö þeirra. Þau geta að sama skapi hindrað hvaða ákvörðun sem er taki þau sig saman, svokallaður „blocking minority“ sem gerir kröfu um að lágmarki fjögur ríki með 35% íbúa sambandsins. Raunar þurfa Þýzkaland og Frakkland nánast hvaða tvö ríki í þeim efnum. Ísland væri þó ekki eitt þeirra.

Hjörtur J. Guðmundsson
sagnfræðingur og alþjóðastjórnmálafræðingur

(Ljósmynd: Brandenborgar-hliðið í Berlín. Eigandi: Leonhard Lenz)