Heiðursgesturinn vill Evrópusambandsher

Meðal þess sem Guy Verhofstadt, forseti European Movement International, hefur talað fyrir er að Evrópusambandið fái sinn eigin her. Verhofstadt var staddur hér á landi nýverið sem heiðursgestur landsþings Viðreisnar. Þar flutti hann ræðu og sagði í henni meðal annars að sambandið þyrfti að verða að heimsveldi en hann hefur lengi verið talsmaður þess að til yrði evrópskt sambandsríki líkt og samtökin sem hann fer fyrir. Var ræðunni fagnað með standandi lófaklappi.

Fjölmargir forystumenn innan Evrópusambandsins hafa í gegnum tíðina lýst yfir stuðningi við það að sambandið fái endanlega eigin her en ýmis skref hafa þegar verið tekin á þeirri vegferð á liðnum árum. Þar á meðal Ursula von der Leyen, núverandi forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins. Hið sama á við um forvera hennar Jean-Claude Juncker sem og til dæmis bæði Emmanuel Macron, forseta Frakklands, og Angelu Merkel, fyrrverandi kanzlara Þýzkalands.

Marga fleiri mætti nefna í þessum efnum. Þar á meðal Valérie Haye, forseta Renew Europe, þingflokks frjálslyndra á þingi Evrópusambandsins, en í bréfi sem hún sendi von der Leyen og António Costa, forseta leiðtogaráðs sambandsins, í febrúar síðastliðnum kom fram að tímabært að það yrði að stórveldi (e. superpower) og kæmi sér enn fremur upp eigin her. Þess má geta að Viðreisn á aðild að evrópsku samtökunum ALDE sem aftur eiga aðild að Renew Europe.

Til að mynda hefur Evrópusambandið þegar eigið herráð og viðbragðssveitir hermanna sem starfa undir stjórn þess. Innrás rússneska hersins í Úkraínu hefur meðal annars leitt til áherzlu á frekari samrunaþróun innan sambandsins á sviði varnarmála en aukinn samruni ríkja þess í þeim efnum mun eðli málsins samkvæmt leiða til frekari skrefa í átt að sameiginlegum her. Allt er þetta ásamt öðru liður í lokamarkmiði samrunans frá upphafi að til verði evrópskt sambandsríki.

Hjörtur J. Guðmundsson
sagnfræðingur og alþjóðastjórnmálafræðingur

(Ljósmynd: Hermenn undir merkjum Evrópusambandsins með fána þess. Eigandi: Þing Evrópusambandsins)