Viðburðastjóri Viðreisnar, Jóhann Karl Ásgeirsson, sagði í grein á vef flokksins fyrr í mánuðinum undir fyrirsögninni „Blessað Evrópusambandið“ að mögulegt væri að vextir á lánum lækkuðu við inngöngu í það, matarkarfan yrði ódýrari, hægt yrði að eiga í viðskiptum við erlenda banka, ekki þyrfti að borga tolla af netpöntunum og að nota mætti sama gjaldmiðil og á Tenerife. Hins vegar þyrfti að fara í umsóknarferli að sambandinu til þess að fá svör við því hvort þetta væri rétt.
Fyrir það fyrsta er ágætt að innan Viðreisnar sé farið að viðurkenna það að ekkert sé í það minnsta hægt að fullyrða til dæmis um það að matvælaverð og vextir myndu lækka við það að ganga í Evrópusambandið eins og Evrópusambandssinnar hafa þó gert árum saman. Hitt er svo annað mál að ekkert verður eðli málsins samkvæmt fjallað um það í viðræðum um inngöngu í sambandið, komi til þeirra, hvernig þróun vaxta eða verðlags kunni að verða hér á landi innan þess.
Hvað lága vexti á evrusvæðinu á liðnum árum varðar hafa þeir alls ekki verið birtingarmynd heilbrigðs efnahagslífs heldur þvert á móti efnahagslegrar stöðnunar með tilheyrandi minnkandi framleiðni, litlum eða engum hagvexti og viðvarandi miklu atvinnuleysi. Efnahagsleg stöðnun felur vissulega í sér ákveðinn stöðugleika en hins vegar ekkert sérlega eftirsóknarverðan. Tilgangur lágra stýrivaxta er iðulega sá að reyna að koma hjólum atvinnulífsins í gang á nýjan leik.
Verðlag á Íslandi er vissulega hátt í evrópskum samanburði en sömuleiðis hérlend laun. Það er verð á vinnu. Vöruverð segir lítið nema einnig sé tekið með hvað fáist fyrir launin. Verðlag er þannig yfirleitt langlægst í Rúmeníu og Búlgaríu en einnig þarlend laun. Hins vegar er ein helzta ástæða hærra verðlags hér á landi samkvæmt rannsóknum flutningskostnaður til landsins. Landfræðileg staðsetning Íslands myndi vitanlega ekki breytast við inngöngu í Evrópusambandið.
Vegna viðskiptasamninga Íslands við Evrópusambandið sem og ákvarðana íslenzkra stjórnvalda eru engir tollar á innfluttar vörur frá ríkjum þess fyrir utan ýmsar landbúnaðarvörur. Þar á meðal í netviðskiptum. Sama á við um innflutning frá öðrum ríkjum heimsins. Innan sambandsins yrðum við hins vegar innan tollmúra þess gagnvart öðrum ríkjum og þyrftum því að greiða tolla vegna alls kyns varnings sem í dag er fluttur tollfrjálst til landsins sem myndi hækka verðlag.
Varðandi fullyrðingu Jóhanns um að Ísland yrði öruggara innan Evrópusambandsins nægir að benda á gríðarlega vanrækslu ríkja þess í varnarmálum árum saman og mikil kaup þeirra á einkum olíu og gasi frá Rússlandi sem setti öryggi sambandsins í uppnám og fjármagnaði enn fremur hernað stjórnvalda í Moskvu samkvæmt orðum forystumanna þess sjálfs. Hvað tal hans þess efnis að evran væri stöðugari en krónan hefur því einmitt verið þveröfugt farið undanfarin ár.
Höfnun Jóhanns á því að valdið yfir íslenzkum sjávarútvegsmálum færi til Evrópusambandsins með inngöngu í það og spurning hans hvar það komi fram er áhugaverð í ljósi þeirrar staðreyndar að kveðið er skýrt á um það í Lissabon-sáttmálanum, grundvallarlöggjöf sambandsins, að valdið í þeim efnum sé alfarið í höndum þess. Halda mætti að þeir sem vilja selja okkur hinum inngöngu í Evrópusambandið ættu allavega að vera sæmilega að sér um það sem þar segir.
Fullyrðing Jóhanns að lokum um að fullveldi Íslands yrði styrkt í sessi með inngöngu í Evrópusambandið er að sama skapi áhugavert með tilliti til þess að vægi Íslands á þingi þess yrði sex þingmenn af vel yfir 700 sem væri á við hálfan þingmann á Alþingi. Staðan yrði enn verri í ráðherraráði sambandsins, valdamestu stofnuninni. Þar er allajafna algerlega miðað við íbúafjölda ríkja þess sem þýddi vægi á við einungis 5% af alþingismanni. Þetta yrði sætið við borðið.
Hjörtur J. Guðmundsson
sagnfræðingur og alþjóðastjórnmálafræðingur
(Ljósmynd: Fáni Evrópusambandsins. Eigandi: Hjörtur J. Guðmundsson)
