Komið hefur meira að segja fram í gögnum sem unnin hafa verið á vegum Evrópusambandsins sjálfs að ástæða þess að Ísland náði sér fljótt á strik aftur eftir bankahrunið haustið 2008, og fyrr en evruríki sem lentu í alvarlegum erfiðleikum, hafi verið sú að landið var með sjálfstæðan gjaldmiðil sem tók mið af þeim efnahagslegu aðstæðum sem skapast höfðu innanlands en ekki evruna. Þvert á það sem hérlendir Evrópusambandssinnar hafa iðulega haldið fram.
Til að mynda sagði þannig í greiningu sem unnin var fyrir þing Evrópusambandsins af stækkunarráðuneyti sambandsins og birt í marz 2014: „Hið litla norræna ríki hefur að mestu náð sér eftir djúpa efnahagskrísu þökk sé gengislækkun gjaldmiðilsins og miklum viðskiptaafangi – viðsnúningur sem var mögulegur að hluta til vegna fjarlægðar landsins frá evrusvæðinu.“ En líklega er Evrópusambandið þarna algerlega úti á túni að mati Evrópusambandssinnanna.
Vitanlega vaknar þá sú spurning í hverju fleiru Evrópusambandið er úti á túni í og hvort það geti þá að þeirra mati talizt meðmæli með inngöngu í sambandið? Hitt er svo annað mál að endurteknar fullyrðingar þeirra um að verðbólga og vextir hér á landi í gegnum tíðina hafi verið sök krónunnar standazt alls enga skoðun eins og til dæmis dr. Ólafur Margeirsson hagfræðingur hefur fært gild rök fyrir. Endurtekning ósanninda gera þau ekki að sannleika.
Hjörtur J. Guðmundsson
sagnfræðingur og alþjóðastjórnmálafræðingur
(Ljósmynd: Höfuðstöðvar ríkisstjórnar Evrópusambandsins. Eigandi: almathias)
