Hafa einfaldlega ekki verið birtar

Við höfum ekki séð niðurstöður skoðanakannana um Evrópusambandið birtar hér á landi síðan síðasta vor. Það er þó ekki vegna þess að slíkar kannanir hafi ekki verið gerðar heldur vegna þess að niðurstöður þeirra hafa einfaldlega ekki verið gerðar opinberar. Að minnsta kosti þrjár kannanir um sambandið hafa verið gerðar síðan án þess að niðurstöðurnar hafi verið birtar. Þær hafa allar borið þess merki að hafa verið gerðar fyrir aðila hlynnta inngöngu í Evrópusambandið.

Fyrir sjö vikum sendi Maskína út skoðanakönnun þar sem spurt var um afstöðu fólks til inngöngu í Evrópusambandið. Fyrirtækið sendi síðan út hliðstæða könnun 4. júlí. Þá sendi Gallup út könnun 21. ágúst þar sem spurt var hvernig fólk myndi kjósa í þjóðaratkvæði um „framhald viðræðna“ um aðild að sambandinu. Orðalagið er greinilega til marks um það að könnunin hafi verið gerð fyrir stuðningsmenn inngöngu í það. Niðurstöður þeirra hafa ekki enn verið birtar. 

Kaupendur skoðanakannana, þar á meðal um pólitísk viðfangsefni, ráða því vitanlega hvort þeir birti niðurstöður þeirra. Séu þær ekki birtar má hins vegar ætla að þær hafi valdið þeim vonbrigðum. Þess má geta að síðustu tvær kannanir Maskínu sem birtar hafa verið, um síðustu áramót og á fyrri hluta ársins, sýndu fleiri andvíga inngöngu í Evrópusambandið en hlynnta. Þá hafa þær kannanir Gallups sem birtar hafa verið sýnt minnkandi stuðning við inngöngu í það.

Hjörtur J. Guðmundsson
sagnfræðingur og alþjóðastjórnmálafræðingur

(Ljósmynd: Fáni Evrópusambandsins. Eigandi: Hjörtur J. Guðmundsson)