Sex stjórnmálaflokkar eiga fulltrúa á Alþingi. Einungis einn þeirra, Samfylkingin, hefur stutt tillögu stjórnlagaráðs að nýrri stjórnarskrá. Hins vegar lýsti Kristrún Frostadóttir, formaður flokksins og nú forsætisráðherra, því yfir haustið 2022 þegar hún tók við formennskunni að málið yrði lagt til hliðar enda til þess fallið að sundra fólki fremur en að sameina það. Meðal annars í kjölfar þess stórjókst fylgi Samfylkingarinnar. Aðrir flokkar sem stutt hafa tillögu stjórnlagaráðs og á annað borð náð inn á þing hafa dottið þaðan út. Þar vega þyngst Píratar sem verið hafa helztu talsmenn nýrrar stjórnarskár.
Hins vegar er ný stjórnarskrá samkvæmt tillögu stjórnlagaráðs ekki lengur stefna Samfylkingarinnar heldur aðeins að þær verði notaðar til þess að breyta gildandi stjórnarskrá. „Treysta þarf grunnstoðir lýðræðissamfélagsins og setja valdhöfum skýrari meginreglur um samfélagslega ábyrgð og hlutverk en gert er í gildandi stjórnarskrá. Ákvæði um þjóðareign auðlinda, þjóðaratkvæðagreiðslur, framsal valds, jafnt atkvæðavægi og náttúruvernd eru á meðal þeirra fjölmörgu atriða sem m.a. tillögur stjórnlagaráðs frá árinu 2011 fjalla um og brýnt er að bundin verði í stjórnarskrá sem fyrst.“
Fátt bendir þannig til þess að það sé þjóðinni kappsmál að skipta um stjórnarskrá eða að meirihlutastuðningur sé í reynd við það á meðal hennar. Mjög dræm þátttaka var í ráðgefandi þjóðaratkvæðinu haustið 2012 um tillögur stjórnlagaráðs þar sem meirihluti minnihluta þjóðarinnar samþykkti að frumvarp yrði lagt fyrir Alþingi að nýrri stjórnarskrá byggt á tillögunum. Það var gert en það náði hins vegar ekki fram að ganga. Áréttað var bæði á kjörseðlinum og kynningarbæklingi sem sendur var á hvert heimili fyrir kosninguna að Alþingi ætti síðasta orðið í þeim efnum í ljósi stjórnskipunar landsins.
Kosið hefur verið til þings fimm sinnum síðan þjóðaratkvæðið fór fram. Flokkar hlynntir nýrri stjórnarskrá á grundvelli tillagna stjórnlagaráðs hafa aldrei riðið feitum hesti frá þeim. Þar kaus mikill meirihluti kjósenda ólíkt þjóðaratkvæðinu. Hins vegar var stjórnlagaráði aldrei falið að semja nýja stjórnarskrá samkvæmt þingsályktun Alþingis um skipun þess heldur einungis að koma með tillögur að breytingum á lýðveldisstjórnarskránni. Með öðrum orðum fór ráðið einfaldlega út fyrir umboð sitt. Fyrir vikið ber vitanlega einungis að líta á tillögurnar sem slíkar. Tillögur að breytingum á stjórnarskránni.
Hjörtur J. Guðmundsson
sagnfræðingur og alþjóðastjórnmálafræðingur
(Ljósmynd: Alþingishúsið. Eigandi: Hjörtur J. Guðmundsson)
