Megn óánægju Viðreisnar með það að forysta Samfylkingarinnar hafi ekki beitt sér í umræðunni um Evrópusambandið er nú komin með afgerandi hætti upp á yfirborðið en til þessa hefur hún aðallega birzt í persónulegum samtölum eins og fjallað hefur verið um á Stjórnmálin.is. Formaður Viðreisnar, Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur, ritaði þannig stöðufærslu á Facebook-síðu sína í gærkvöldi þar sem hún fagnaði pistli Dags B. Eggertssonar, þingmanns Samfylkingarinnar, í Morgunblaðinu í gær með þeim orðum að ánægjulegt væri að sjá þungaviktarfólk í Samfylkingunni taka undir með Viðreisnarfólki varðandi inngöngu í Evrópusambandið og upptöku evrunnar. Ágreiningurinn er með öðrum orðum orðinn alvarlegri en áður.
„Ánægjulegt að sjá þungavigtarfólk úr þingflokki Samfylkingarinnar leggjast á sveif með okkur í Viðreisn að tala hátt, skýrt og af skynsemi um evruna og vaxtakjör,“ ritaði Þorgerður þannig í færslunni og vitnaði síðan til þessara orða Dags við lok pistilsins: „Upptaka evru ætti að vera helsta baráttumál samtaka launafólks, neytenda og samtaka í byggingariðnaði. Verktakar segja sjálfir að fjármagnskostnaður sé að sliga þá. Ungt fólk er varla spurt.“ Ekki er þannig látið nægja að fagna pistli Dags heldur tækifærið notað til þess að sparka í forystumenn Samfylkingarinnar sem ljóslega var megintilgangurinn.
Færslunni lauk Þorgerður með orðunum: „Við erum klár í samtal um Evruna. Enda eitt stærsta hagsmunamál almennings á Íslandi í dag.“ Hins vegar er athyglisvert að hún skyldi ekki birta öll lokaorð Dags sem voru svohljóðandi í heild: „Upptaka evru ætti að vera helsta baráttumál samtaka launafólks, neytenda og samtaka í byggingariðnaði. Verktakar segja sjálfir að fjármagnskostnaður sé að sliga þá. Ungt fólk er varla spurt. Enginn talar um evru. Þessa þögn þarf að rjúfa.“ Þessi orð hentuðu Þorgerði greinilega ekki. Með þeim er Dagur annars ljóslega einnig að gagnrýna forystu Samfylkingarinnar.
Hitt er svo annað mál að það er skiljanlegt að lítið sé talað um evruna. Mikil efnahagsvandræði Evrópusambandsins eru æpandi sem eru ekkert nýtt en hafa aldrei verið verri. Lágir vextir á svæðinu eru ekki birtingarmynd heilbrigðs efnahagslífs heldur þvert á móti efnahagslegrar stöðnunar með tilheyrandi víðast hvar litlum sem engum hagvexti og viðvarandi miklu atvinnuleysi. Einkum á meðal ungs fólks. Þá er deginum ljósara að krónunni verður ekki kennt um verðbólgu og vexti hér á landi þó það henti sumum af pólitískum ástæðum að kenna henni um án þess að færa fyrir því haldbær rök.
Til að mynda hefur Ólafur Margeirsson hagfræðingur sýnt fram á það með gildum rökum að það standist ekki skoðun að verðbólga og háir vextir séu afleiðing þess að krónan sé lítill sjálfstæður gjaldmiðill. Þá ætti það sama að eiga við um aðra slíka. Fylgnin þar á milli sé hins vegar mjög veik. Hvað Dag annars varðar kemur það vitanlega úr hörðustu átt að kenna krónunni um verðbólguna enda ljóst að hún hefur ekki sízt verið afleiðing mikils skorts á húsnæði og þá einkum í Reykjavík vegna vægis borgarinnar og þéttingarstefnu meirihlutans í borginni árum saman. Lengst af undir forystu hans.
Hjörtur J. Guðmundsson
sagnfræðingur og alþjóðastjórnmálafræðingur
(Ljósmynd: Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra. Eigandi: Mfa.gov.ua – Attribution 4.0 International)
