Hverjum hefði getað dottið það í hug?

Framkvæmdastjóri Evrópuhreyfingarinnar, Snærós Sindradóttir, var nýverið í Noregi í boði Europabevægelsen, systursamtaka hreyfingarinnar, og flutti þar ræðu á fundi þeirra. Fram kemur á Facebook-síðu Evrópuhreyfingarinnar að niðurstaða fundarins hafi verið sú að Norðmenn sæu „Evrópusambandið sem svarið“ við stöðu heimsmálanna. „Nú hafa Norðmenn skorað á okkur Íslendinga í keppni: Hvort landið verður fyrra til að taka skrefið til fulls. Við megum ekki tapa því kapphlaupi!“

„Ég er í Osló. Hér hef ég átt inspirerandi samtöl við norsk skoðanasystkini um Evrópuframtíðina, sem koma frá öllu hinu pólitíska litrófi. Norðmenn finna sterkt fyrir því að vera annars flokks Evópuland, verandi aðeins í EES, og vilja stíga skrefið til fulls nú þegar hvorki er hægt að stóla á stöðugleika í austri né vestri,“ ritaði Snærós á eigin Facebook-síðu þar sem hún deildi færslunni. Hverjum hefði getað dottið í hug að norskir Evrópusambandssinnar vildu ganga í Evrópusambandið?

Veruleikinn er sá að fleiri hafa verið á móti inngöngu Noregs í Evrópusambandið samkvæmt öllum skoðanakönnunum sem birtar hafa verið undanfarin 20 ár. Samkvæmt könnun Opinion í ágúst voru 55% Norðmanna andvíg því að ganga í sambandið en 33% hlynnt. Sé aðeins miðað við þá sem tóku afstöðu með eða á móti voru tæp 63% mótfallin því. Minnstur stuðningur var í röðum fólks undir þrítugu eða 24% en 60% á móti. Eða rúm 71% á móti af þeim sem tóku afstöðu með eða á móti.

Forsætisráðherra Noregs, Jonas Gahr Støre, ítrekaði fyrri orð sín um að innganga í Evrópusambandið væri ekki á dagskrá af hálfu Verkamannaflokks hans í samtali við Ríkisútvarpið þegar kosið var til norska Stórþingsins í september en flokkurinn sigraði kosningarnar. Hafnað var á landsfundi Verkamannaflokksins í apríl að setja þjóðaratkvæði um málið í stefnuskrá hans. Þá er innganga í sambandið ekki stefna flokksins og hefur ekki verið um árabil ólíkt því sem var hér í eina tíð.

Hitt er svo annað mál að margt bendir vissulega til þess að ófáir Norðmenn séu ekki of hressir með EES-samninginn. Til að mynda hafa ítrekað verið gerðar kannanir í Noregi þar sem spurt hefur verið að því hvort fólk vildi frekar EES-samninginn eða víðtækan fríverzlunarsamning. Iðulega hefur í kringum þriðjungur viljað EES-samninginn, um þriðjungur fríverzlunarsamning og um þriðjungur ekki verið viss. Reglulega hafa fleiri viljað fríverzlunarsamning en EES-samninginn.

Hjörtur J. Guðmundsson
sagnfræðingur og alþjóðastjórnmálafræðingur

(Ljósmynd: Norskir fánar fyrir utan konungshöllina í Ósló, höfuðborg Noregs. Eigandi: Maxxii)