Vill endurskoðun EES-samningsins

Kosið verður til þings í Noregi næsta haust en miðað við skoðanakannanir þar í landi stefnir í það að næsta ríkisstjórn landsins verði hægristjórn mynduð af Framfaraflokknum og Hægriflokknum. Með þeim fyrirvara vitanlega að enn eru margir mánuðir í kosningarnar og ýmislegt sem gæti breytzt. Komi aftur til ríkisstjórnarsamstarfs flokkanna tveggja líkt og á árunum 2013-2018 gæti Framfaraflokkurinn farið fyrir stjórninni að þessu sinni í stað Hægriflokksins miðað við kannanir.

Framfaraflokkurinn mældist þannig með 24,2% fylgi í skoðanakönnun sem birt var 6. janúar í Nettavisen, Hægriflokkurinn með 21% og Verkamannaflokkurinn 20,6%. Aðrir flokkar eru með innan við 10% fylgi og gjarnan vel innan við það. Varðandi Evrópumálin er Framfaraflokkurinn andvígur inngöngu Noregs í Evrópusambandið og vill enn fremur endurskoða ákveðna þætti EES-samningsins. Ljóst er að slík ríkisstjórn myndi ekki setja sambandið á dagskrá frekar en síðast.

Hinn möguleikinn er hliðstæð ríkisstjórn og nú situr undir forystu Verkamannaflokksins ásamt eða með stuðningi flokka til vinstri sem ekki vilja ganga í Evrópusambandið. Fullyrðingar í röðum hérlendra Evrópusambandssinna um að Noregur sé á leið í sambandið eftir næstu kosningar á sér enga stoð. Meira að segja Heidi Nordby Lunde, leiðtogi norsku Evrópuhreyfingarinnar, sagði aðspurð í samtali við Nettavisen nýverið að hún teldi ekki sú yrði raunin í fyrirsjáanmlegri framtíð.

Hjörtur J. Guðmundsson
sagnfræðingur og alþjóðastjórnmálafræðingur

(Ljósmynd: Norska Stórþingið. Eigandi: NN – norden.org)