„Hvað finnst ykkur um þetta?“ spurði Baldur Þórhallsson, prófessor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands, spenntur í tíma um stöðu Íslands innan alþjóðakerfisins haustið 2010. Hann hafði þá spilað myndskeið sem Samband ungra sjálfstæðismanna hafði látið gera fyrir sig fyrir þingkosningarnar 2003 þegar útlit var fyrir að kosningabaráttan myndi ekki sízt snúast um það hvort ganga ætti í Evrópusambandið en ég sat tímann sem hluta af meistaranámi mínu í alþjóðasamskiptum.
Talsverð umræða skapaðist fyrir vikið á árinu 2002 um málið sem leiddi til stóraukinnar andstöðu við inngöngu í sambandið. Samfylkingin ákvað því að leggja ekki áherzlu á það fyrir kosningarnar. Hins vegar hafði SUS þegar látið gera myndskeiðið er hér var komið sögu og fyrir vikið ákváðu ungir sjálfstæðismenn að nota það eftir sem áður í kosningabaráttunni. Var það þannig spilað meðal annars í Ríkissútvarpinu skömmu fyrir kosningarnar en horfa má á það hér fyrir neðan.
Fyrr en nokkur gat svarað sagði Baldur: „Spilum þetta aftur!“ Þegar myndskeiðið hafði verið spilað öðru sinni á tjaldinu fyrir framan nemendurna endurtók hann spurninguna jafnvel enn spenntari en áður: „Jæja, hvað fannst ykkur?“ Samnemandi minn einn tók þá til máls og sagði: „Ja, þetta er náttúrulega bara áróður,“ og átti ljóslega við það að ekkert væri hæft í því sem fram kæmi í myndskeiðinu en áróður getur jú sem kunnugt er bæði verið sannleikanum samkvæmt og ekki.
Mér þótti þetta vægast sagt sérstök framganga og spurði því: „Er það? Er einhver hér inni tilbúinn að fullyrða það að ef við göngum í Evrópusambandið muni þetta ekki gerast?“ Það varð grafarþögn að mér fannst í langan tíma. Enginn sagði neitt. Baldur horfði á mig með opinn munninn án þess að segja nokkuð. Síðan sneri hann sér undan og fór að tala um eitthvað allt annað. Hann minntist ekki aftur á myndskeiðið og var eins og hann hefði aldrei sýnt það. Hvað þá tvisvar.
Sjálfur varð ég fyrir ákveðnum vonbrigðum þar sem ég var mjög til í að taka þessa umræðu sem boðið var upp á enda ljóst að stjórn íslenzkra sjávarútvegsmála færðist til Evrópusambandsins kæmi til þess að Ísland gengi þar inn. Það er í dag algerlega niðurneglt í Lissabon-sáttmála sambandsins og þar á meðal væri taka ákvarðana í ráðherraráði þess um það hverjir mættu veiða við landið. Vægi Íslands þar eins og í flestu öðru yrði einungis á við 5% hlutdeild í alþingismanni.
Hvað myndskeiðið varðar er boðskapur þess enn í fullu gildi eins og fyrir rúmum 20 árum síðan sem er ástæðan þess að það er rifjað hér upp ásamt þessari sögu. Fyrir utan það að landsmenn eru jú orðnir fjölmennari í dag og Bretar eru ekki lengur í Evrópusambandinu. Ef eitthvað á það enn betur við núna enda hefur miðstýring innan sambandsins, bæði í sjávarútvegi og á flestum öðrum sviðum, gert lítið annað en að aukast samhliða vaxandi framsali valds frá ríkjum þess.
Hjörtur J. Guðmundsson
sagnfræðingur og alþjóðastjórnmálafræðingur
(Ljósmynd: Fáni Evrópusambandsins. Eigandi: Hjörtur J. Guðmundsson)