Framtíðin er meira en fjögur ár

Tal um að Ísland þurfi að ganga í Evrópusambandið vegna þess að Donald Trump hafi verið kjörinn forseti Bandaríkjanna öðru sinni stenzt vægast sagt enga skoðun. Þó ekki nema fyrir þá staðreynd að eftir minna en fjögur ár verður Trump endanlega horfinn úr Hvíta húsinu að óbreyttri stjórnarskrá landsins. Það getur seint talizt skynsamlegt að taka afdrifaríka ákvörðun til langrar framtíðar, eins og þá að ganga í sambandið, byggt einungis á næstu tæpum fjórum árum.

Fyrir helgi birtist grein í Morgunblaðinu eftir Dag B. Eggertsson, þingmann Samfylkingarinnar, þar sem hann hélt því fram að við Íslendingar þyrftum að ganga í Evrópusambandið vegna varnarmálanna þar sem ekki væri hægt að treysta á Bandaríkin lengur í þeim efnum. Skírskotaði hann í ummæli höfð eftir Trump frá 2018 í endurminningum Jens Stoltenberg, fyrrverandi forsætisráðherra Noregs, þar sem hann er sagður hafa spurt hvað gera ætti við Ísland í þeim efnum.

Fram kemur í endurminningunum að Stoltenberg hafi útskýrt fyrir Trump sérstöðu Íslands innan NATO sem herlausrar þjóðar. Hitt er svo annað mál að Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra hefur ítrekað lýst því yfir að fullur skilningur sé hjá stjórnvöldum í Bandaríkjunum á sérstöðu landsins eftir samskipti við þarlenda ráðamenn og að ekkert hafi komið fram sem bendi til þess að Bandaríkjamenn muni ekki standa við varnarskuldbindingar sínar gagnvart Íslandi.

Treysta ekki ESB í varnarmálum

Tal Dags um að frekar sé hægt að treysta á Evrópusambandið þegar kemur að varnarmálum er vægast sagt sérstakt. Ekki sízt í ljósi þeirrar gríðarlegu vanrækslu sem ríki sambandsins hafa gerzt sek um á liðnum árum og áratugum þegar varnarmál þeirra hafa verið annars vegar. Þau hafa nú lofað bót og betrun en ljóst er að taka mun mörg ár að bæta upp fyrir vanræksluna þannig að þau verði fær um verja sig sjálf og hvað þá aðra. Líklega í það minnsta áratug að mati sérfræðinga.

Takist á annað borð að bæta fyrir vanræksluna verður Trump þá löngu horfinn úr Hvíta húsinu. Mikilvægt er annars að hafa í huga að Ísland er þegar í varnarsamstarfi við nær öll ríki Evrópusambandsins í gegnum NATO fyrir utan Austurríki, Írland, Kýpur og Möltu sem búa yfir mjög takmarkaðri varnargetu. Ekki þarf að ganga í sambandið til þess. Utan Evrópusambandsins en í NATO eru hins vegar meðal annars ríki eins og Bretland, Noregur og Kanada auk Bandaríkjanna.

Vert er einnig að hafa í huga í þessum efnum að stjórnvöld í bæði Finnlandi og Svíþjóð lýstu því yfir til að mynda á ráðstefnu NATO-þingsins í Helsinki í október 2022 að helzta ástæða þess að ríkin hefðu sótt um aðild að NATO þrátt fyrir að vera þegar í Evrópusambandinu hefði verið sú að þau gætu ekki treyst sambandinu í varnarmálum. Þrátt fyrir skuldbindingar þess eðlis í sáttmálum Evrópusambandsins væri ekkert á bak við þær. Til að mynda hvorki viðbúnaður né áætlanir.

Hafa fjármagnað hernað Rússa

Við þetta bætist síðan sá nöturlegi veruleiki, sem ráðamenn Evrópusambandsins hafa ítrekað gengizt við frá innrás Rússlands í Úkraínu, að með miklum kaupum á einkum rússnesku gasi og olíu árum og áratugum saman hafi ríki sambandsins í reynd fjármagnað hernaðaruppbyggingu rússneskra stjórnvalda og síðan hernað þeirra í Úkraínu. Til að mynda benti Josep Borrell, þáverandi utanríkisráðherra Evrópusambandsins, á þetta í ræðu á þingi sambandsins þann 9. marz 2022.

„Þegar Rússar réðust inn á Krímskaga töluðum við um að við þyrftum að draga úr því hversu háð við værum rússnesku gasi,“ sagði Borrell enn fremur í ræðunni. Þess í stað hefðu ríki Evrópusambandsins þvert á móti keypt enn meiri orku frá Rússlandi. Í annarri ræðu sem hann flutti 1. marz sama ár sagði hann að rætt hefði verið um það að draga þyrfti úr í þessum efnum í að minnsta kosti tuttugu ár en þvert á móti hefðu ríki sambandsins sífellt orðið háðari rússnesku gasi.

Hins vegar er ekki nóg með það heldur eru ríki Evrópusambandsins enn í dag að kaupa rússneska orku þremur og hálfu ári eftir innrásina í Úkraínu og muni halda því áfram þar til allavega í byrjun árs 2027. Frá innrásinni hafa ríkin varið 210 milljörðum evra til kaupa á rússneskri olíu og gasi samkvæmt rannsókn hugveitunnar Centre for Research on Energy and Clean Air eða sem nemur rúmum 30 þúsund milljörðum íslenzkra króna. Þar af 22 milljörðum evra á síðasta ári.

Verri framkoma ESB en Trumps

Með öðrum orðum er þetta fólkið sem Dagur og aðrir Evrópusambandssinnar telja að sé treystandi fyrir vörnum Íslands og enn fremur stjórn landsins með inngöngu í það. Fólki sem í dómgreindarleysi sínu tókst að setja orkuöryggi Evrópusambandsins og þar með efnahagsmál þess í fullkomið uppnám með því að gera það háð rússneskri orku þvert á varnaðarorð áratugum saman. Þar á meðal og ekki sízt frá hverjum forseta Bandaríkjanna á fætur öðrum. Trump fann það ekki upp.

Dagur toppar sig síðan með því að minnast á yfirstandandi tollastríð í ljósi þess að framkoma Evrópusambandsins í garð okkar Íslendinga hefur verið miklu verri í þeim efnum en bandarískra stjórnvalda. Við erum þannig til að mynda ekki með neina viðskiptasamninga við Bandaríkin en erum með slíka samninga við sambandið. Jafnvel Þorgerður Katrín hefur tekið undir það að fyrirhugaðir refsitollar Evrópusambandsins gagnvart Íslandi feli í sér brot gegn EES-samningnum.

Tal Dags að lokum um meinta erfiða stöðu smáþjóða utan tollabandalaga með vísan til Evrópusambandsins er síðan áhugavert. Ekki sízt í ljósi þess að slík bandalög eru í eðli sínu andstæða frjálsra milliríkjaviðskipta og hugsuð fyrst og fremst til þess að vernda framleiðslu innan þeirra gegn utanaðkomandi samkeppni. Innan sambandsins leggðust tollar á alls kyns vörur frá ríkjum utan þess sem í dag eru fluttar til landsins tollalausar. Fyrir utan annað sem fylgdi inngöngu í það.

Hjörtur J. Guðmundsson
sagnfræðingur og alþjóðastjórnmálafræðingur

(Birtist áður í Morgunblaðinu 7. október 2025)

(Ljósmynd: Bandaríska þinghúsið. Eigandi: Balon Greyjoy)