Fer Guðlaugur Þór í borgina?

Fátt hefur líklega þótt verra í röðum okkar sjálfstæðismanna en að hafa varla farið með stjórn Reykjavíkurborgar síðan nokkru fyrir síðustu aldamót. Hafa margar tilraunir verið gerðar til þess að ná borginni á nýjan leik með ófáum oddvitum en nánast allt fyrir ekki. Fátt bendir því miður til þess að breytinga sé að vænta í þeim efnum miðað við kannanir.


Vangaveltur hafa verið uppi um það að Guðlaugur Þór Þórðarson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og fyrrverandi ráðherra, kunni að hasla sér völl á ný í borgarmálunum fremur en að fara í formannsslag í flokknum. Guðlaugur Þór var í borgarmálunum á árunum 1998–2006 áður en hann fór í landsmálin og gat sér gott orð sem öflugur borgarfulltrúi.

Færa má gild rök fyrir því að ef einhver í Sjálfstæðisflokknum geti komið sjálfstæðismönnum aftur til valda í Reykjavíkurborg sé það Guðlaugur Þór með sitt öfluga bakland í borginni. Í ljósi eyðimerkurgöngu okkar í borgarmálunum undanfarna áratugi yrði fátt veglegri minnisvarði á að mörgu leyti merkum stjórnmálaferli en að endurheimta borgina.

Hjörtur J. Guðmundsson
sagnfræðingur og alþjóðastjórnmálafræðingur

(Ljósmynd: Ráðhús Reykjavíkur. Eigandi: David Stanley – Attribution 2.0 Generic)