Hvers vegna var fyrirsögninni breytt?

Fyrirsögn fréttar Vísis um að þingflokkur Sjálfstæðisflokksins hefði ekki látið sjá sig á fundi Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur í gær, þar sem hún tilkynnti framboð til formennsku í flokknum, fyrir utan hana sjálfa var fram eftir degi „Þing­flokkurinn mætti ekki á fundinn“ en var síðan af einhverjum ástæðum breytt í „Ýmis­legt hægt að lesa í mætingu á fund Ás­laugar“.

Mögulega skýring er sú að ekki hafi verið talið rétt að tala um að þingflokkurinn hefði ekki mætt á fundinn líkt og hann hefði skrópað á honum. Væri það skýringin hefði hins vegar auðveldlega mátt laga það án þess að breyta fyrirsögninni efnislega. Til dæmis með því að segja einfaldlega „Þing­flokkurinn kom ekki á fundinn“. Skýringin hlýtur því að vera önnur.

Til dæmis sú staðreynd að um var að ræða mest lesnu fréttina á Vísi um fund Áslaugar. Raunar komust aðeins tvær af þeim mörgu fréttum sem ritaðar voru um fundinn á listann, umrædd frétt og fréttin um að hún gæfi kost á sér í formennskuna. Á mbl.is voru að sama skapi ritaðar margar fréttir í gær um fundinn en engin þeirra komst þó á mest lesna listann þar.

Telja verður líklegt að framboði Áslaugar hafi þótt það líta illa út að því væri slegið upp í fyrirsögn að enginn af þrettán þingmönnum Sjálfstæðisflokksins fyrir utan hana sjálfa hafi komið á fundinn. Þeim hefur klárlega verið boðið enda virðist það nánast hafa átt við um alla sjálfstæðismenn. Mér var til dæmis boðið en mætti þó ekki frekar en þingmennirnir.

Hjörtur J. Guðmundsson
sagnfræðingur og alþjóðastjórnmálafræðingur

(Ljósmynd: Fréttavefur Vísis. Eigandi: Hjörtur J. Guðmundsson)