Vitanlega liggur beinast við að allir þeir stjórnmálaflokkar sem tóku við ríkisstyrkjum áður en þeir uppfylltu lagaleg skilyrði fyrir því endurgreiði þá fjármmuni skattgreiðenda. Sama hvaða flokka um er að ræða.
Fram kemur í frétt Vísis í dag að fleiri flokkar en Flokkur fólksins og Vinstri grænir hafi um tíma fengið styrki án þess að uppfylla skilyrði þess. Þar á meðal Sjálfstæðisflokkurinn, Píratar og Sósíalistaflokkurinn.
Vinstri grænir fengu um 266 milljónir króna, Flokkur fólksins um 240 milljónir, Sjálfstæðisflokkurinn um 167 milljónir, Píratar um 67 milljónir og Sósíalistaflokkurinn um 50 milljónir króna. Samtals um 790 milljónir.
Vafalaust mun það koma illa við einhverja flokka að skila fjármununum. Hins vegar er ljóst að greiðslurnar voru ekki lögum samkvæmt og flokkarnir allir væntanlega verið meðvitaðir um það líkt og Flokkur fólksins.
Hjörtur J. Guðmundsson
sagnfræðingur og alþjóðastjórnmálafræðingur
(Ljósmynd: Íslenzkir peningar. Eigandi: Hjörtur J. Guðmundsson)
