Furðuleg krafa Samfylkingarinnar

Fjallað er um það í Morgunblaðinu í dag að Samfylkingin hafi gert kröfu um að fá þingflokksherbergi Sjálfstæðisflokksins í kjölfar þingkosninganna á þeim forsendum að þingflokkur hennar sé nú sá stærsti á Alþingi. Hins vegar munar aðeins einum þingmanni á Samfylkingunni og Sjálfstæðisflokknum, fimmtán á móti fjórtán.

Fram kemur í fréttinni að reglur Alþingis kveði á um það að þingflokkar haldi þingflokksherbergjum sínum nema nauðsyn annarra og stærri þingflokka kalli á breytingar. Ljóst er að sú er alls ekki raunin fyrir utan þá staðreynd að slíkur stærðarmunur er ekki á þingflokkunum að það geti haft einhver teljandi áhrif í þessum efnum.


„Reglurnar kveða á um að almennt skuli stefnt að því að þingflokkar haldi herbergi sínu nema nauðsyn standi til annars. Fjölgun Samfylkingar réttlætir þess vegna ekki að Sjálfstæðisflokkurinn víki úr sínu gamla herbergi,“ hefur Morgunblaðið meðal annars eftir Hildi Sverrisdóttur, þingflokksformanni Sjálfstæðisflokksins, um málið.

Með öðrum orðum má ljóst vera að engar forsendur eru til þess að fallast á kröfu Samfylkingarinnar sem er í engu samræmi við reglur þingsins í þessum efnum. Væntanlega má ljóst vera að komizt fjórtán manna þingflokkur fyrir í öðru þingflokksherbergi ætti að sama skapi að geta farið ágætlega um fimmtán manna þingflokk þar.

Hins vegar hafa gárungarnir skemmt sér yfir málinu og til að mynda hafði einn þeirra á orði að skiljanlegt væri að Samfylkingin vildi komast í þingflokksherbergi Sjálfstæðisflokksins enda væri auðvitað mun betri andi þar en í öðrum þingflokksherbergjum. Óvíst væri þó hvort hann héldist kæmi til þess að Samfylkingin tæki það yfir.

Hjörtur J. Guðmundsson
sagnfræðingur og alþjóðastjórnmálafræðingur

(Ljósmynd: Alþingishúsið. Eigandi: Hjörtur J. Guðmundsson)