„Fjölbreytt reynsla Guðrúnar úr atvinnulífinu, úr félagsstarfi, á pólitískum vettvangi og ekki sízt sem dómsmálaráðherra á krefjandi tímum er reynsla sem ný forysta Sjálfstæðisflokksins þarf á að halda,“ segir meðal annars í ályktun sem sjálfstæðisfélögin í Árborg og fulltrúaráð sjálfstæðisfélaganna í sveitarfélaginu sendu frá sér á dögunum þar sem lýst er yfir stuðningi við það að Guðrún Hafsteinsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, verði næsti formaður flokksins.
„Guðrún hefur af krafti, dugnaði og framsýni komið inn í íslenzk stjórnmál og óhikað barizt fyrir bættu samfélagi með sjálfstæðisstefnuna að leiðarljósi,“ segir enn fremur í ályktun sjálfstæðisfélaganna í Árborg. Hliðstætt kemur fram í ályktun stjórnar Sjálfstæðisfélagsins Ægis í Ölfusi þar sem lýst er yfir stuðningi við Guðrúnu, hún hvött til þess að bjóða sig fram til formanns og sjálfstæðismenn að sama skapi hvattir til þess „að styðja Guðrúnu í þessu mikilvæga verkefni.“
„Guðrún hefur sýnt sig og sannað sem dugmikinn og framsýnan stjórnmálamann með djúpa þekkingu á íslenzku samfélagi og hefur hún ávallt barizt fyrir hagsmunum landsmanna með miklum þrótti. Í henni býr traustur leiðtogi en með hana í fararbroddi mun Sjálfstæðisflokkurinn halda áfram að vera öflugt og framsýnt stjórnmálaafl sem berst fyrir frjálsum markaði, einstaklingsfrelsi og öflugu samfélagi,“ segir enn fremur í stuðningsyfirlýsingu Sjálfstæðisfélagsins Ægis.
„Nú skiptir máli að sameina flokkinn og teljum við að reynsla Guðrúnar úr atvinnulífinu nýtist flokksstarfinu vel og hún geti styrkt stöðu flokksins á landsvísu,“ segir í ályktun Sjálfstæðisfélags Grindavíkur þar sem lýst er yfir stuðningi við að Guðrún bjóði sig fram til formennsku í Sjálfstæðisflokknum. Þá hafa Sjálfstæðisfélagið, Félag ungra sjálfstæðismanna og Fulltrúaráð sjálfstæðisfélaganna í Austur-Skaftsfellssýslu einnig lýst yfir stuðningi við Guðrúnu sem næsta formann.
Einnig segir í ályktun Sjálfstæðisfélags Reykjanesbæjar: „Á þessum tíma í sögu flokksins skiptir máli að hafa traustar hendur við stýrið sem sameinar flokkinn og þorir að sækja fram á grundvelli sjálfstæðisstefnunnar. Guðrún kom eins og stormsveipur inn í íslensk stjórnmál á síðasta kjörtímabili og sem dómsmálaráðherra sýndi hún það að hún þorir að taka ákvarðanir sem sumum kunna að þykja umdeildar. Það er nákvæmlega það sem Sjálfstæðisflokkurinn þarf á þessari stundu.“
Fram kemur í ályktun Sjálfstæðisfélags Hveragerðis að félagið telji Guðrúnu „réttan aðila til að taka við forystu Sjálfstæðisflokksins enda hokin af reynslu af mörgum mikilvægum sviðum samfélagsins.“ Enn fremur hafi hún sýnt það í verki á hinu pólitíska sviði sem og á frjálsum markaði hvers megnug hún sé. Þá segir í ályktun Sjálfstæðisfélags Suðurnesjabæjar: „Öflugri leiðtoga er erfitt að finna og þá er hún gædd þeim eiginleika að fá fólk til að vinna saman. Sjálfstæðisflokkurinn þarf leiðtoga sem getur sameinað flokkinn og þorir að taka krefjandi ákvarðanir.“
Hjörtur J. Guðmundsson
sagnfræðingur og alþjóðastjórnmálafræðingur
(Ljósmynd: Merki Sjálfstæðisflokksins. Eigandi: Hjörtur J. Guðmundsson)